138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[22:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega sjálfsagt að gera bætur á öllum hlutum og sjálfsagt að hnykkja á því í framtíðinni um Fjárfestingastofu. Ef ég man rétt, og ég man það rétt, ræddum við þessa grein aðeins í nefndinni og ekki þótti ástæða til að gera það að sinni en hv. þingmaður gerir þá bara tillögu um það á næsta ári. Að mínu mati er þessi grein um Fjárfestingastofu alveg skýr og eiginlega finnst mér óþarfi að negla alltaf alla hluti í lögum nákvæmlega niður. Þetta er alveg skýrt að verja á þarna 14% af tekjum af markaðsgjaldi til verkefna af þeim toga, þ.e. fyrir þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta. En það verður þá bara flutt tillaga um það.

Hér er breytingartillaga þar sem hlutverk aðalfundar er aðeins skýrt, sem sagt að „á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir stefnumótun Íslandsstofu og störfum sínum og fagráða, og birtir rekstraráætlanir og ársreikninga“. Það er a.m.k. að hluta til gert hér.

Ég fagna því að komið er að lokum þessa máls vegna þess að við vitum að beðið er eftir því að þetta verði klárað af því að fólk hefur talið að það geti ekki alveg unnið að þessum málum fyrr en það veit hver framtíðin er og hún er sem sagt hér þegar búið verður að samþykkja frumvarpið.