138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum.

465. mál
[22:30]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum. Það eru nokkrar konur, hv. þingmenn, sem flytja þessa tillögu. Það er sú er hér stendur og svo eru það Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Eygló Harðardóttir. Eins og sést eru þetta hv. þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi þannig að það má segja að það sé þverpólitískur stuðningur við tillöguna.

Í tillögugreininni segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum í ljósi þess að hún er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp.“

Ég verð að segja að ég hef fengið nokkuð góð viðbrögð við þessari tillögu. Hv. þingmenn eru kannski ekki mjög hátt skrifaðir hjá þjóðinni í augnablikinu, því miður, en mig langar að upplýsa að ég hef verið stoppuð úti á götu til að taka við þakklæti fyrir að flytja svona mál í þinginu. Það er því alveg greinilegt að það eru mjög margir sem telja að þetta sé gott mál enda snertir það frekar marga, og ég ætla að færa rök fyrir því, virðulegur forseti, út frá þessari greinargerð hér.

Það kemur fram í greinargerðinni að pneumókokkasýkingar geta valdið eyrnabólgu og fleiri alvarlegum sýkingum hjá börnum og reyndar hjá eldra fólki líka. Þar er hægt að tína til lungnabólgu, blóðsýkingu og heilahimnubólgu. Eyrnabólgur og vandamál þeim tengd eru eitt algengasta heilsuvandamál barna á Íslandi. Talið er að allt að 95% barna fái eyrnabólgu að minnsta kosti einu sinni fyrir sex ára aldur þannig að það eru fáir sem sleppa, það eru einungis 5% barna okkar sem sleppa við eyrnabólguna. Það er sagt að um þriðjungur barna fái síendurteknar eyrnabólgur fram að sex ára aldri þannig að þetta er ein algengasta sjúkdómsgreiningin í heilbrigðisgeiranum. Hér á landi er eyrnabólga algengasta orsök sýklalyfjaávísunar og skýrir yfir 50% allrar sýklalyfjanotkunar meðal barna. Það er því ansi svæsinn sjúkdómur, virðulegur forseti, að fá eyrnabólgu vegna pneumókokka. Hin mikla notkun sýklalyfja vegna eyrnabólgu á einna stærstan þátt í sýklalyfjaónæmi á Íslandi en það er mikið hér miðað við önnur ríki. Tíðni hljóðhimnurörísetninga er einnig mjög há á Íslandi þar sem um þriðja hvert barn fær rör í eyrun og engin þjóð notar rörin eins mikið og Íslendingar. Langvarandi eyrnabólga hefur líka ýmis afleidd vandamál, svo sem áhrif á málþroska vegna þess að börnin heyra verr á meðan þau eru á markaldri í máltöku. Það eru til margar sögur af því þegar börn fá rör í eyrun, þá taka þau allt í einu kipp í málþroska, þau eru farin að heyra hljóðin í umhverfinu í kringum sig.

Sýklalyfjaónæmi vegna pneumókokka hefur verið vaxandi vandamál hér á landi eins og í öðrum löndum á undanförnum árum, m.a. vegna mikillar notkunar sýklalyfja. Menn nota lyfin kannski heldur meira en þörf er á af því að samfélagið krefst þess að bjarga börnunum út úr veikindunum með lyfjum fljótt og örugglega þannig að foreldrarnir geti komist til vinnu. Það er alveg ljóst að vegna þessarar óheillaþróunar hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvatt til minni sýklalyfjanotkunar. Það er því til mikils að vinna ef hægt er að draga úr pneumókokkasýkingum á Íslandi, sérstaklega hjá ungum börnum.

Það hefur verið rætt hvort taka eigi upp bólusetningar gegn fleiri sjúkdómum. Fyrir utan pneumókokkana hefur verið rætt um bólusetningar gegn HPV-smiti hjá ungum stúlkum, en HPV-sýking getur valdið leghálskrabbameini síðar á ævinni.

Í október 2008 skilaði ráðgjafahópur, sem fékk það verkefni hjá heilbrigðisráðherra þess tíma að skoða bólusetningar og skimanir, ítarlegri skýrslu. Í þeirri skýrslu var lagt mat á forvarnir sem lúta að bólusetningum og skimunum gegn smitsjúkdómum og krabbameinum. Var þar m.a. lagt mat á gildi og kostnaðarhagkvæmni bólusetninga. Í skýrslunni var m.a. mælt með því að hafinn yrði undirbúningur að bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum. Það var líka mælt með því að hefja bólusetningu með HPV-bóluefni meðal 12 ára stúlkna og það er einmitt mál sem er hér næst á dagskrá, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er 1. flutningsmaður að þeirri þingsályktunartillögu og einnig sú er hér stendur. Einnig var mælt með því að könnuð yrði kostnaðarhagkvæmni bólusetninga gegn hlaupabólu og lagt til að heilbrigðisyfirvöld hefðu sér til ráðgjafar óháðan rannsóknarhóp með aðkomu vísindamanna í lýðheilsu- og heilbrigðisvísindum og siðfræðinga til að leggja mat á forvarnastarf á borð við bólusetningar og skimanir.

Þetta var niðurstaða skýrslunnar. Síðan kom í ljós að við höfðum ekki allt það fé milli handanna sem þurfti til að koma þessu öllu í gang. Í nóvember 2008 var því beint til sóttvarnalæknis að tillögu þessa ráðgjafahóps að það yrði að forgangsraða þar sem það væri ekki fjárhagslega mögulegt í ljósi efnahagsástandsins að fara að öllum tillögum hópsins. Við þá forgangsröðun sem beðið var um var haft samráð við Sigurbjörn Þorsteinsson, yfirlækni og formann sóttvarnaráðs, og Vilhjálm Rafnsson, prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða ráðgjafahópsins og þeirra sérfræðinga sem haft var samráð við var að réttast væri að hefja fyrst bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum, það væri sem sagt númer eitt af þeim kostum sem í boði voru.

Varðandi kostnaðarhagkvæmnina kom í ljós að kostnaðurinn við þessar þrjár forvarnaaðgerðir, þ.e. að bólusetja gegn pneumókokkum og við HPV-veiruni og að hefja skimanir á ristilkrabbameini, er sambærilegur við þessar aðgerðir en kostnaðarhagkvæmni bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum er mest miðað við kostnað á hvert lífsgæðavegið lífár. Ég ætla ekki að þylja upp tölurnar, virðulegur forseti, ég ætla aðeins að reyna að flýta fyrir hér, en það eru ýmsar tölur þessu til sönnunar í greinargerðinni.

Varðandi lýðheilsuáhrif segir í greinargerðinni að ávinningur með bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum sé sá að hún skilar árangri þegar í stað eftir að bólusetning hefst, einkum meðal barna, dregur úr notkun sýklalyfja og kemur í veg fyrir sýklalyfjaofnæmi. Bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini skilar sér fyrst eftir 10–20 ár þannig að maður þarf að bíða talsvert lengi eftir árangri miðað við pneumókokkabólusetningarnar. Eins er ávinningurinn við skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini fyrst ljós eftir tíu ár með minnkandi dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Þarna er því hægt að ná árangri hratt ef maður byrjar á bólusetningu við pneumókokkum. Framkvæmdin er líka mjög einföld, bæði á bólusetningu gegn pneumókokkum og HPV-smiti, börnin eru bara sprautuð og þetta fellur mjög vel að ungbarnabólusetningunni en framkvæmdin við að skima gegn ristil- og leghálskrabbameini er mun flóknari.

Það er líka ljóst að tæplega 50 Íslendingar fá alvarlegar sýkingar af völdum pneumókokka árlega, þá á ég við mjög alvarlegar sýkingar, og sex einstaklingar deyja að jafnaði á ári hverju vegna þess, tæplega eitt barn og um fimm aldraðir. Við höfum nú þegar ágæta reynslu af bólusetningum gegn öðrum kokkum, þ.e. við meningókokkum sem valda heilahimnubólgu. Árið 2002 var farið að bólusetja við meningókokkum C og við það hurfu nánast sýkingar vegna þeirra. Pneumókokkar hafa ekki jafnvíðtæk áhrif og meningókokkar í tengslum við heilahimnubólgu en þeir valda engu að síður mjög miklum usla ef þeir ná að þróast yfir í lífshættulega sjúkdóma. Það er ljóst varðandi heilahimnubólgu, sem er kannski skelfilegasta birtingarmynd pneumókokkasýkinga, er talið að um 10% þeirra sem fá heilahimnubólgu út af pneumókokkum látist og 20–30% hljóta heilaskaða eða missa útlim. Hér á landi skipta þeir einstaklingar hundruðum sem hafa örkumlast af völdum heilahimnubólgu á síðustu áratugum enda gekk heilahimnubólgufaraldur hér yfir í bylgjum á seinni helmingi síðustu aldar. Pneumókokkarnir valda því líka heilahimnubólgu þannig að það er til mikils að vinna að takmarka útbreiðslu pneumókokka eins og hægt er.

Aðrir hafa nú þegar hafið þessar bólusetningar og ég vil nefna að það eru 24 lönd sem hafa nú þegar byrjað að bólusetja gegn pneumókokkum. Öll Norðurlöndin eru byrjuð, Grænlendingar, nágrannar okkar í norðri, eru líka byrjaðir. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að tveimur árum eftir að Bandaríkjamenn hófu almenna bólusetningu gegn pneumókokkum, en þeir hófu bólusetningu árið 2000, hafði tilfellum miðeyrnabólgu fækkað um 40% þá, endurteknum miðeyrnabólgum um 33% og rörísetningum um 23%. Sóttvarnasvið landlæknisembættisins hér á landi áætlar að með bólusetningum við pneumókokkum dragi úr heilahimnubólgu og blóðsýkingum hjá börnum um 65%, þannig að það er til mikils að vinna. Sömuleiðis er búist við að lungnabólgutilfellum fækki hjá börnum um meira en 200 á ári og að eyrnabólgutilfellum fækki um 30–40%. Hér geta menn heyrt að bólusetningarnar útiloka ekki eyrnabólgu en þær takmarka eyrnabólgutilfellin verulega fyrir utan það að færri heilahimnubólgutilvik, lungnabólgutilvik o.s.frv. koma upp.

Ég vil líka draga hér fram að svokölluð hjarðáhrif eru talsverð af bólusetningunum. Þetta er dálítið skrýtið orð, hjarðáhrif, áhrif á hjörðina, en þar er átt við að börnin sem lenda í pneumókokkasýkingum smita stundum þá sem í kringum þau eru, bæði foreldra, ömmur og afa o.s.frv., og það er auðvitað neikvætt og sérstaklega fyrir eldra fólk sem er svolítið viðkvæmt. Auðvitað vilja allir vera í miklum samskiptum við börn sín og barnabörn eins og gefur að skilja og með því að bólusetja börnin drögum við almennt úr algengi pneumókokka í samfélaginu þannig að það hefur ekki bara mjög jákvæð áhrif á börnin okkar heldur líka á alla sem í kringum þau eru.

Ég sé því ekki annað, virðulegur forseti, en að það sé upplagt að fara í þessar bólusetningar. Þær kosta skildinginn en það er kannski erfitt að meta lífið og allan skaðann sem pneumókokkar valda. Menn hafa reynt að gera það og fundið út að það er kostnaðarhagkvæmt að gera þetta. Það er áætlað að þetta kosti eitthvað í kringum 120 milljónir. Það kostaði í kringum 65 millj. kr. á verðlagi ársins 2008 þegar úttektin var gerð, en eftir hrun eru þetta líklega orðnar í kringum 120 milljónir.

Fyrir stuttu síðan hélt heilbrigðisráðuneytið mjög skemmtilegan fund um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu sem ég sótti. Þar hélt Tinna Laufey Ásgeirsdóttir merkilega tölu. Hún hefur skoðað heilbrigðiskerfið út frá hagfræðilegum staðreyndum og tók bólusetningar gegn pneumókokkum sem dæmi um aðgerð sem væri kostnaðarhagkvæmt að fara í. Á sömu ráðstefnu talaði hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, og dró saman niðurstöður ráðstefnunnar. Hún tjáði sig líka á jákvæðan hátt um þessar bólusetningar. Ég hef líka heyrt hæstv. heilbrigðisráðherra lýsa yfir miklum áhuga opinberlega á að skoða það að taka upp bólusetningar gegn pneumókokkum. Ég tel því að það sé eðlilegt að þessi þingsályktunartillaga fari í heilbrigðisnefnd og fari hratt og örugglega til umsagnar þannig að þingið geti tekið afstöðu til hennar, hvort það vill styðja það að við nýtum 160 milljónir til að hefja þessar bólusetningar sem öll Norðurlöndin hafa nú þegar hafið og að við náum þeim árangri sem aðrir hafa náð með bólusetningum. Þá getum við lækkað talsvert það hlutfall barna sem fá eyrnabólgu á Íslandi og fækkað tilfellum af heilahimnubólgu, lungnabólgu og blóðsýkingum til hagsbóta fyrir alla. Ég tel mjög brýnt að þetta mál nái fram hið fyrsta (Forseti hringir.) og á von á góðum stuðningi við það hér.