138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

ríkisfjármál og samstarf við AGS.

[12:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bjóst við að hv. þingmaður mundi fagna því sem ég sagði, að við værum að leita leiða til að ekki þyrfti að fara eins djúpt í niðurskurð og í stefndi. Í stað þess agnúast hv. þingmaður út í það. Ég geri mér alveg grein fyrir því sem hv. þingmaður sagði, skatttekjur eru minni en að var stefnt, en engu að síður erum við að skoða leiðir til þess að skera minna niður. Það er búið að skera mjög mikið niður og það verður mjög erfitt að fara í mjög djúpan niðurskurð núna án þess að uppsagnir þurfi að koma til hjá hinu opinbera nema við finnum aðrar leiðir til þess. Það er það sem við erum að gera.

Út af því sem hv. þingmaður heldur hér ítrekað fram, og mér skilst að sé ekki í fyrsta skipti í þessum ræðustól, að við göngum miklu lengra varðandi yfirlýsinguna í þessu bréfi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en um var samið á milli flokkanna, held ég að það sé alveg nauðsynlegt að við formenn flokkanna setjumst yfir það og skerum úr um það í eitt skipti fyrir öll hvort þar sé farið lengra eins og hv. (Forseti hringir.) þingmaður nefnir — sem ég fullyrði að er ekki. Ég skal beita mér fyrir því að haldinn verði fundur til að við getum farið yfir þetta svo þetta mál sé einhvern tímann úr sögunni.