138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

opinbert neysluviðmið.

[12:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mér þótti þetta nokkuð merkilegt svar. Annars staðar á Norðurlöndunum eru neysluviðmið. Af hverju er það tálsýn á Íslandi að við skyldum setja okkur neysluviðmið? Ég á svolítið erfitt með að skilja það. Áðurnefnd skýrsla var mjög vönduð og færð að því sterk og góð rök að það væri engin tálsýn að koma á fót opinberu neysluviðmiði á Íslandi. Ég vek enn og aftur athygli á því hversu nauðsynlegt þetta er núna vegna þess að við verðum vitni að því að hæstv. ráðherrar tala um það í blöðunum að hinar sértæku skuldaaðgerðir eigi að tryggja fólki að það geti lifað með reisn, eins og það er kallað, það geti lifað mannsæmandi lífi, en við vitum öll sem sitjum hér inni að þetta er algjörlega óskilgreint.

Hvað er það að lifa með reisn? Neyslukönnun Hagstofunnar á árabilinu 2006–2008 leiddi í ljós að meðalútgjöld heimilis til neyslu eru 427.000 Þau eru 180.000 kr. fyrir einstakling. Þetta er meðaltal, það er miklu hærra en t.d. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna gerir ráð fyrir. Á hvaða fjármunum (Forseti hringir.) eiga heimilin sem fara í gegnum greiðsluaðlögun að lifa í fimm ár? Þetta er stór spurning.