138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

opinbert neysluviðmið.

[12:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við erum kannski ekki alveg að tala um sama hlutinn. Það er auðvitað engin tálsýn að hægt sé að setja af stað einhverja vinnu og búa til reglur um hvernig á að reikna út neysluviðmið. Það er alveg hægt. Það er hægt að fá út úr því einhverjar tölur og þær tölur verða þá einhvern veginn, þ.e. að fjölskylda með tvö börn sem býr í Kópavogi þurfi a.m.k. svo margar krónur en fjölskylda með þrjú börn sem býr í Hveragerði þurfi eitthvað fleiri krónur, eða færri eftir atvikum. Þetta er allt hægt.

Spurningin er: Hvaða svör veita þessar tölur? Ég held að það sé tálsýn að þessar tölur veiti einhver endanleg svör um það hvað fjölskylda þarf. Það verður alltaf tekist á um það. Það verður tekist á um hvað á að vera inni í neysluviðmiðinu. Er t.d. eðlilegt að fjölskylda geti rekið bíl? Er eðlilegt að fjölskylda geti farið í utanlandsferðir á einhverra ára fresti o.s.frv.? Hver er eðlileg neysla fjölskyldna? Það svar fæst ekki í eitt skipti fyrir öll með því að setja nefnd í málið.