138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

höfuðstólslækkun gagnvart fyrirtækjum.

[12:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Sú leið sem Íslandsbanki kynnti fyrir nokkrum dögum er vitaskuld eitt af mörgum úrræðum fyrir skuldsett fyrirtæki sem þessi banki og aðrir bankar hafa kynnt og að mínu mati ágætisviðbót við þá flóru úrræða sem hefur verið í boði. Hún tekur m.a. á þeim vanda að bæði lánveitandi og lántakandi hafa í þessum tilfellum gengisáhættu hvor í sína áttina. Fyrir fyrirtæki sem ekki eru með neinar eignir eða tekjur í erlendri mynt er þungbært að vera berskjölduð fyrir gengissveiflum og bankinn sem getur ekki fjármagnað sig í erlendri mynt og hefur mjög takmarkaða burði til þess nú um stundir er með gengisáhættu sem er að sumu leyti í hina áttina en auk þess er hann með skuldaraáhættu vegna þess að ef gengi krónunnar leikur skuldarann mjög grátt mun það fyrirsjáanlega koma mjög illa við lánveitandann.

Þessi aðgerð er mjög eðlileg og ég veit reyndar til þess að menn hafa í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja undir ýmsum öðrum áætlunum farið svipaða leið, þ.e. fyrirtæki sem voru með miklar skuldir, að einhverjum hluta í erlendri mynt, fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og koma út úr henni með skuldir að mestu eða öllu leyti í krónum, vitaskuld þá eitthvað hærri vexti eins og vaxtaumhverfið er hér. Þetta held ég að sé eðlileg og nauðsynleg aðgerð, og styð hana. Ég þori ekki að svara fyrir hönd annarra banka, hvorki Landsbankans né Arions, eða sparisjóðanna, en ég tel þó allt eins víst að þeir muni, hafi þeir ekki þegar gert það án þess að ég hafi tekið eftir því, kynna einhverjar svipaðar leiðir vegna þess að þetta eru mjög rökrétt viðbrögð við þeim vanda sem þeir eru að reyna að leysa.