138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð man væntanlega ræddum við þingmenn talsvert um Icesave-málið á liðnum mánuðum og dögum og við þær umræður var ýmislegt fullyrt. Meðal annars var fullyrt að orðræða stjórnarandstöðunnar hefði kostað íslensku þjóðina tugi milljarða og kostnaðurinn vegna tafa Icesave-málsins næmi tugum milljarða. Ég taldi því rétt að fá hæstv. forsætisráðherra til að útskýra það fyrir okkur í hverju þessi kostnaður er falinn og hvernig hann sundurliðast. Eða er þetta einfaldlega slagorð sem slegið var fram hér í umræðunni æ ofan í æ til þess að reyna að fá hv. þingmenn stjórnarliðsins til að kjósa rétt við atkvæðagreiðsluna?

Mörg orð féllu í umræðunni um Icesave. Það var margt sem kom fram í þinginu og m.a. kom hér til umræðu póstur sem hét Rauði þráðurinn, sem dreift var á einhvern póstlista hjá Samfylkingunni, þar sem fullyrt var að valið stæði á milli Icesave eða ísaldar. Þar segir, með leyfi forseti:

„Sjálfstæðisflokkurinn með Morgunblaðið sem safnaðarblað er að framkalla nýtt efnahagshrun á Íslandi, nýja ísöld í fjármálalífi þjóðarinnar.“

Nú vitum við öll hvernig þetta mál endaði, þótt ekki sé búið að klára það er það í ákveðinni stöðu. Forsetinn synjaði því að staðfesta lögin um Icesave og ég kannast ekki við það að hér hafi brostið á ísöld þrátt fyrir það. Þegar menn viðhafa stór orð héðan úr ræðustól er ágætt að rukka þá um hvað þau þýða í raun og veru og nú er einfaldlega komið að því. Ég óska eftir skýringu á því: Hvað átti hæstv. forsætisráðherra við í munnlegri skýrslu sinni, sem flutt var þann 8. mars sl., um stöðuna að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem fram kom um kostnaðinn? Í ræðu hæstv. forsætisráðherra segir, með leyfi forseta:

„Engum blöðum er um það að fletta að tafirnar á lausn Icesave-málsins kosta okkur milljarðatugi.“

Hvað er átt við með þessum orðum, hvernig sundurliðast þessi fjárhæð og hvernig í ósköpunum er þessi fullyrðing rökstudd?