138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Það var engu líkara en við værum komin aftur til vetrarins sem nú er nýliðinn því að hæstv. forsætisráðherra var farinn að tala aftur um kaldan frostavetur sem hún hótaði þá. Þetta eru sömu hótanir sem beitt er hér í dag en því miður er komið sumar og hér er allt í lagi enn og hinn sami kaldi frostavetur ekki enn kominn.

Það er hreint með ólíkindum að forsætisráðherra á Alþingi Íslendinga skuli tala með þessum hætti. Stjórnarandstaðan er búin að spara þjóðarbúinu a.m.k. 100 milljarða á því að standa í fæturna hvað varðar Icesave-samninginn. Þökk sé forseta vorum að hafa staðið með þjóð sinni og minni hlutanum á Alþingi í því máli.

Hæstv. forsætisráðherra á fyrst og fremst að tala upp til þjóðar sinnar, hvetja hana áfram til dáða en ekki nota þann tíma sem hún (Forseti hringir.) hefur hér í ræðustól Alþingis til að tala hana niður og (Forseti hringir.) hræða hana eins og hún gerir nú.