138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að hér er allt í ágætum gangi, það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að segja.

Ákveðnir þingmenn hafa hins vegar gert það að ákveðnu þingtæknilegu listformi að lýsa ástandi sem væri hægt að jafna við efnahagslegan frostavetur. Ég minni á ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í gær og ræðu formanns Framsóknarflokksins hér áðan.

Staðreyndin er sú að vegna Icesave eru gjaldeyrishöftin enn þá. Það gerir það að verkum að ekki hefur tekist að ná gjaldeyri inn í landið, ná peningum inn í landið til þess að ráðast í ákveðnar fjárfestingar. (Gripið fram í.) Það er númer eitt. Númer tvö að vegna þess að Icesave er ekki lokið hefur okkur ekki tekist að fá fjármagn í þrjár virkjanir, (Gripið fram í.) það skiptir máli. Mestu skiptir hins vegar að ríkisstjórnin vann pólitískt kraftaverk sem fólst í því að fá í gegn endurskoðun AGS og fá gjaldeyrislán sem því fylgdu þrátt fyrir að Icesave væri ekki lokið. Það er það sem skýrir þá stöðu að hér er allt í (Forseti hringir.) bærilegum gangi. Það er vegna þeirra verka ríkisstjórnarinnar. Það ætti (Forseti hringir.) hv. þm. Pétur H. Blöndal að vita.