138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að rifja upp ummæli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að það væri annaðhvort ríkisstjórnin eða forsetinn sem þyrfti að segja af sér þegar forsetinn synjaði lögunum staðfestingar þannig að það eru ýmis orð sem hafa fallið.

Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í þessa umræðu í dag. Hún hefur verið hressileg enda er hér um gríðarlega stórt mál að ræða. Við í stjórnarandstöðunni sátum undir því ámæli af hálfu stjórnarflokkanna, og þar fór fremst í flokki hæstv. forsætisráðherra, að við værum að skapa þær aðstæður að hér væri að skella á frostavetur af því að við vildum ekki samþykkja Icesave-samning ríkisstjórnarinnar.

Það hefur hins vegar sannast að við höfðum rétt fyrir okkur. Samningsstaða landsins hefur batnað og það kemur mér á óvart að hæstv. forsætisráðherra talar um það að hún treysti á mat Moody's. Ég hélt að við hefðum lært það af hruninu að það væri best að gera sínar eigin áætlanir en ekki treysta á þá ágætu ráðgjöf. (Gripið fram í.)

Það er gæfa okkar allra að standa saman. Það gerði íslenska þjóðin í Icesave-málinu á endanum. Sem betur fer var það ekki gert sem ríkisstjórnin lagði upp með í júní í fyrra, að samþykkja þann samning sem dreginn var hér upp án þess að stjórnarflokkarnir hefðu fengið að sjá hann. (ÓÞ: Við hefðum nú betur samþykkt hann.) — Við hefðum betur samþykkt hann, segir hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. (Gripið fram í.) Hvar er ábyrgðin hjá þessum hv. þingmönnum? Geta menn ekki séð að það var ekki íslensku þjóðinni í hag að samþykkja þann samning? (Gripið fram í.) Menn gefast einfaldlega upp fyrir verkefninu.

Það getur vel verið að hæstv. utanríkisráðherra líti á það sem pólitískt kraftaverk að ríkisstjórnin nái einhverjum árangri með eitthvað. En þetta fólk var kosið til þess að stjórna hér landinu og fólk á þá að vinna sína vinnu en ekki að leggja stein í (Forseti hringir.) götu þjóðarinnar, ekki hæðast að því þegar þjóðin stendur saman, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerir hér.