138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

kostnaður vegna tafa á lausn Icesave-málsins.

480. mál
[12:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er býsna athyglisverð umræða. Það sem upp úr henni stendur er mikið fagnaðarefni fyrir okkur stjórnarsinna, hér kemur hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum og lýsir mjög góðu efnahagsástandi, segir að hér sé allt í besta lagi og skammar þá sem standa fyrir svartagallsrausi, þá sem tala efnahagsástandið niður og tala um frostavetur.

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmenn hafa fylgst með því sem ég sagði hér þegar ég svaraði, að ég vísaði hér í merka aðila eins og ASÍ, (Gripið fram í.) sem tekur undir það að samdráttur muni aukast verulega og seinka öllum hagvexti og að atvinnuleysi muni aukast ef Icesave-deilan leysist ekki. Ég var líka að vitna í Seðlabankann sem talaði um verulegan samdrátt, eins og fram kom í máli mínu. Ég var því bara að vitna í staðreyndir, í merkar stofnanir eins og Seðlabankann og virt félagasamtök eins og ASÍ máli mínu til stuðnings í þessu efni, hvaða afleiðingar það mundi hafa ef Icesave-deilan leystist ekki. Ég vil trúa því að það sé mjög mikið til í þessu. Þótt ekki sé hægt að tala um frostavetur, eins og hv. þingmenn nefndu hér, er alveg ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á efnahagsstöðuna, hagvöxtinn, ef deilan leysist ekki.

Ég vil segja við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hún ætti aðeins að fara í læri hjá sínum fyrrum formanni sem sagði um Framsóknarflokkinn og m.a. Icesave-málið að flokkurinn hafi týnt áttum, dottið niður í vel meint en vanhugsað vinsældakapphlaup um ófæra flata skuldalækkun, um þrákelkni í Icesave-málinu og einangrunarstefnu andspænis Evrópu en almenna framtíðarstefnu virtist skorta. Framsókn þyrfti að losa sig úr faðmlagi sjálfstæðismanna (Forseti hringir.) og huga að því að byggja brú yfir til miðjumanna í Samfylkingunni. (Gripið fram í.)