138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég tek hér aftur upp mál sem ég vakti athygli á fyrir sex mánuðum í þinginu. Ég spurði þá hæstv. fjármálaráðherra út í heimildina sem var veitt varðandi útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem er mál sem ég hef beitt mér mikið fyrir og veit að hefur gagnast mjög mörgum. Þetta var heimild sem var veitt á sínum tíma og var síðan framlengd aftur á þessu ári. Síðast þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í þetta mál veitti hann þær upplýsingar að tæplega 40.000 einstaklingar hefðu nýtt sér þessa heimild og að um 24 milljarðar hefðu verið greiddir út úr sjóðunum, þar sem hluti af þessum upphæðum rennur til bæði ríkis og sveitarfélaga í formi skatttekna, 6 milljarðar líklega til ríkisins og 3 milljarðar til sveitarfélaga.

Ég veit að það eru, eins og ég sagði hér áðan, margir sem hafa nýtt sér þetta og aukið þar með ráðstöfunartekjur sínar og ekki síður notað þessa fjármuni til að greiða niður óhagstæð skammtímalán, t.d. eins og yfirdráttarlán eða víxla. Þetta eru líklega um 100 þús. kr. og eftir skatt eru þetta um 70 þús. kr. sem einstaklingar geta fengið greiddan út mánaðarlega og munar nú um minna. Í ljósi reynslunnar af þessu fyrirkomulagi er ég mjög forvitin að heyra í hæstv. fjármálaráðherra um stöðuna núna. Hann sagði á sínum tíma, þegar ég spurði hann hér í þinginu 21. október 2009, að til greina kæmi að endurskoða þetta, eða sem sagt að framlengja þetta, sem hefur verið gert.

Nú langar mig til þess, í ljósi þess hversu vel þetta hefur gagnast, að fylgja þessu frekar eftir og spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji koma til greina að rýmka þetta enn frekar þannig að þeir einstaklingar sem það vilja geti tekið út að fullu sína inneign. Auðvitað þarf að hafa í huga áhrifin á lífeyrissjóðina en samkvæmt mínum upplýsingum hafa þessar útgreiðslur ekki haft nein veruleg áhrif á lífeyrissjóðina. Þær hafa hins vegar gagnast þessum einstaklingum sem í hlut eiga mjög miklu máli.

Samkvæmt mínum upplýsingum hlaupa þær upphæðir sem langflestir einstaklingar eiga þarna inni ekki á milljónum, enda hafa lögin ekki verið til mjög lengi. Ég vildi því freista þess að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra til þessa fyrirkomulags og hvort honum finnist koma til greina að opna þetta þannig að fólk geti tekið út að fullu það sem það á inni í þessum sjóðum.