138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kærkomið að fá tækifæri til þess að fara aðeins yfir stöðu þessa máls og upplýsa um hvernig þróunin hefur verið.

Eins og kunnugt er var með lögum nr. 13/2009 tímabundnu ákvæði bætt inn í viðeigandi lög þannig að vörsluaðilar séreignarsparnaðar fengu heimildir til að greiða út á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 séreignarsparnað sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi að fjárhæð allt að 1 millj. kr. Þetta var síðan framlengt með lögum nr. 130/2009 til 1. apríl 2011 og hámarksfjárhæðin hækkuð í 2,5 millj. kr. Staðan í dag er þannig að rúmlega 45.000 einstaklingar hafa sótt um útborgun séreignarsparnaðar frá upptöku þessara heimilda og þar af höfðu rúmlega 42.000 einstaklingar þegar sótt um útgreiðslu um síðustu áramót þegar heimildin kom til rýmkunar. Nú hafa rúmlega 8.000 sótt um útgreiðslu umfram 1 millj. kr. og ég er með gögn og meira að segja línurit sem sýna þá þróun sem ekki er hægt að lýsa hér í töluðum orðum.

Við gildistöku upphaflegu laganna, laga nr. 13/2009, var áætlað að landsmenn ættu nálægt 300 milljörðum kr. í séreignarlífeyrissparnaði og þar af var talið að um 200 milljónir væru tilkomnar vegna viðbótariðgjalds og af þeim mundu 80–90 milljarðar verða lausir til ráðstöfunar við gildistöku laganna. Áætlanirnar gerðu ráð fyrir að allt að helmingur þessarar fjárhæðar kynni að verða leystur út, þ.e. 40–50 milljarðar kr. Rétthafar séreignarsparnaðar voru við gildistöku laganna nálægt 120.000 og má af því sjá að meðaleign hvers rétthafa í frjálsri séreign var í kringum 2 millj. kr.

Samtals hefur í dag verið sótt um útgreiðslu rúmlega 37 milljarða kr. á grundvelli heimildanna frá 31 vörsluaðila. Þar af hafa sótt um útgreiðslur upp á tæpa 33 milljarða kr. þeir sem eru hjá 10 stærstu vörsluaðilunum sem mest hafa greitt út, eða munu greiða út. Langstærstur hluti þessara greiðslna fór fram á árinu 2009 og hefur útstreymi lækkað nokkuð jafnt og þétt þó að nokkur kippur kæmi í það aftur eftir framlenginguna. Aftur er ég með línurit hér í gögnum sem sýnir hvernig þessi þróun hefur nákvæmlega verið og ég get með gleði afhent hv. fyrirspyrjanda það á eftir.

Þess má geta að um 900 millj. kr. hafa verið greiddar út til einstaklinga með lögheimili erlendis og fyrir liggja gögn um það hvernig greiðslurnar skiptast á sveitarfélög. Má sjá að sum þeirra hafa þar fengið verulega búbót, eins og sveitarfélagið Reykjavík, en mér sýnist að útgreiðslur í því sveitarfélagi einu séu um 13 milljarðar kr.

Nú er það svo að séreignarsparnaðurinn er að sjálfsögðu mikilvægt sparnaðarform fyrir flesta rétthafa en engu að síður hafa stjórnvöld ákveðið að heimila þessar útgreiðslur. Það var gert til að aðstoða það fólk sem ætti í fjárhagserfiðleikum, að auðvelda því aðgang að þessari eign sinni, og vonast til að andvirðinu yrði t.d. ráðstafað til skuldalækkunar, til þess að gera upp eða lækka yfirdrætti og aðrar slíkar skuldir og einfaldlega til þess að auðvelda mönnum framfærslu við okkar erfiðu aðstæður. Þar með leiðir útgreiðslan að sjálfsögðu til aukinnar eftirspurnar í hagkerfinu og það er enginn vafi á því að þessi aðgerð hefur gert það. Í það heila tekið tel ég að hún hafi heppnast mjög vel og sem betur fer hafa ekki reynst innstæður fyrir efasemdum og áhyggjum sem uppi voru um framkvæmdina, að þetta mundi valda miklum erfiðleikum eða vandkvæðum, heldur hið gagnstæða. Almennt höfum við í fjármálaráðuneytinu ekki orðið vör við annað en ánægju með þetta fyrirkomulag.

Spurningunni um það hvort ganga eigi lengra en þegar hefur verið gert kýs ég að svara þannig að á þessu stigi málsins eru ekki áform um það. Þær vísbendingar sem við sjáum úr útgreiðslunum og umsóknunum benda til þess að stærstur hlutinn sem taldi sig hafa þörf fyrir að nýta sér þessa fjármuni hafi þegar gert það. Og fjölgunin hefur ekki orðið svo mikil að það bendi til þess að veruleg eftirspurn væri eftir því að ganga lengra eða heimila útgreiðslur að fullu, enda er ljóst að allmargir tæma að sjálfsögðu sinn séreignarsparnað með fjárhæðum sem eru orðnar þetta rúmar 2,5 millj. kr. Það er líka áhugavert að skoða aldursdreifinguna og fleira í samsetningu þeirra sem hafa nýtt sér þessi úrræði og úr því má lesa ákveðnar vísbendingar.

Þannig að svarið er að að svo stöddu (Forseti hringir.) eru ekki áform um að rýmka þessar reglur enn frekar. En að sjálfsögðu fylgjumst við með framvindu mála og tökum á móti óskum ef þær berast um slíkt.