138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

rýmkun heimilda til útgreiðslu séreignarsparnaðar.

420. mál
[13:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Bara til að það sé á hreinu eru það 37 milljarðar kr. sem sótt hefur verið um útgeiðslur á. Það er ekki búið að greiða allar þær fjárhæðir út og vantar auðvitað talsvert upp á. Þessar útgreiðslur munu verða í gangi út þetta ár og eitthvað inn á árið 2011 á grundvelli þeirra heimilda sem þegar eru til staðar.

Ég er ósammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að þessi aðgerð hafi ekki verið réttlætanleg, ég tel þvert á móti að hún hafi verið vel heppnuð. Ég þekki fjölmörg dæmi þess að fólk hafi haft samband og þakkað fyrir þetta og upplýst að það hafi gagnast því við að vinna úr sínum málum, t.d. gagnvart hlutum eins og þeim að komast út úr yfirdráttarskuldum. Foreldrar hafa haft samband og þakkað fyrir að fá aðgang að þessu, kannski fólk sem ekki hefur alveg náð sextugsaldri en fær þarna aðgang að fjármunum sem það hefur notað til að aðstoða annaðhvort sjálft sig eða börn sín og þar fram eftir götunum.

Ég vil biðja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að bera bara fram fyrirspurn um skattatillögur Sjálfstæðisflokksins, það er dálítið snúið að fá fyrirspurn inn í fyrirspurninni um jafnstórt og erfitt mál. En í hnotskurn þekkjum við skoðanaskiptin um það mál og séreignarsparnaður verður náttúrlega ekki notaður í margt í einu. Hann nýtist okkur og tugum þúsunda mjög vel á grundvelli þeirra heimilda sem við höfum innleitt og tekjur til ríkis og sveitarfélaga skila sér í leiðinni og hjálpa þó að það sé ekki eins mikið eins og ef þeir seildust í þær allar, eins og hugmyndir sjálfstæðismanna gengu út á. Sparnaðarformið sem slíkt hefur ákveðið þanþol og útgreiðslugeta vörsluaðilanna er náttúrlega ekki takmarkalaus þannig að við þurfum að hafa í huga líka: Ætlum við þá í raun og veru að sætta okkur við að við lokum eða leggjum meira og minna af þetta form ef við göngum svo langt í útgreiðslum?

Varðandi það að opna þetta t.d. með skuldajöfnunaraðferðum, hleypur séreignarsparnaðurinn ekki frá okkur. Ég hef ekki útilokað neitt í þeim efnum, ég get alveg endurtekið yfirlýsingar mína um að ég er tilbúinn að fylgjast með þróuninni og skoða þetta mál ef það getur á grundvelli einhverra skynsamlegra tillagna gagnast okkur enn betur en það hefur gert hingað til. (Forseti hringir.) Ég vil heldur ekki gefa út einhverjar yfirlýsingar fyrir fram eða vekja væntingar sem kannski er ekki geta til að standa við.