138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

stofnfé í eigu sveitarfélaga.

472. mál
[13:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Erfiðleikar og hrun sparisjóða upp á síðkastið hafa valdið mjög miklum erfiðleikum víða í byggðum landsins, ekki síst hjá stofnfjáreigendum. Má ætla að við þessa erfiðleika og hrun séu hundruð milljóna króna að hverfa úr efnahagsumhverfi heilu byggðarlaganna, jafnvel lítilla byggðarlaga, og þegar allt er talið telst þetta örugglega í milljörðum króna.

Áfall stofnfjáreigenda er auðvitað mjög alvarlegt, við höfum þegar rætt það, og það er sums staðar svo að það er stóralvarlegt fyrir heilu byggðirnar sem eiga mjög mikið undir í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að menn leiti lausna í þessum efnum. Við ræddum það fyrr í þessari viku þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra flutti skýrslu sína um stöðu sparisjóðamálanna.

Það er annar hluti þessa máls sem einnig þarf að ræða, það er staða þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga. Áfallið við hrun sparisjóða í litlum byggðarlögum og áfallið vegna erfiðleika í rekstri sparisjóða í litlum byggðarlögum, er auðvitað mjög alvarlegt. Það hefur auðvitað áhrif á almenning. Það hefur áhrif á stofnfjáreigendur og það hefur bein áhrif á sveitarfélögin, m.a. vegna þess að ýmis sveitarfélög eiga stofnfé í þessum sparisjóðum sem er annaðhvort allt tapað vegna hruns tiltekinna sparisjóða, eða, eins og blasir við, að stofnféð í flestum þeim sparisjóðum sem eftir standa verður fært niður mjög mikið, 90–95% eru tölur sem heyrst hafa að ég hygg, m.a. frá hæstv. fjármálaráðherra.

Það er því ljóst mál að þetta mun hafa víðtæk áhrif á sveitarfélögin í landinu. Gleymum því ekki að staðan er sú núna að þeir sparisjóðir sem þegar hafa orðið að hætta starfsemi voru með um 90% af efnahagsreikningi heildarsparisjóðakerfisins í landinu.

Ég hef stundum vakið athygli á þessu í þingræðum, sérstaklega því sem snýr að sveitarfélögunum sjálfum. Ég hef kallað eftir viðbrögðum við þessu sem ég hef ekki fengið.

Í ræðu 9. júlí á síðasta ári sagði ég t.d. um sparisjóðina að þeir væru einstæð fyrirtæki að því leytinu að þeir væru oft og tíðum að bjóða fram atvinnustarfsemi af því tagi sem ekki þekkist annars staðar og þeir koma líka til skjalanna þegar aðrar bankastofnanir hafa brugðist atvinnulífinu í þessum byggðum. Ég sagði þá: Þetta er áfall. Hefur hæstv. samgönguráðherra ekki komið að þessu máli? Hefur ráðherra sveitarstjórnarmála ekki neina skoðun á þessu máli? Hefur ráðuneyti sem á að fara með hagsmuni sveitarfélaga ekki velt því fyrir sér hvernig það ætlar að bregðast við þegar litlu sveitarfélögin úti á landi verða fyrir svona áfalli?

Þetta eru í hnotskurn þær spurningar sem ég hef lagt fram með formlegum hætti til hæstv. (Forseti hringir.) samgönguráðherra og vænti skýrra svara frá honum.