138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameining á bráðamóttöku Landspítala.

351. mál
[13:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég vil lýsa ánægju minni með að það skuli hafa gengið svo vel á þetta skömmum tíma frá því að þessi sameining átti sér stað. Ég verð að viðurkenna það voru ákveðnar efasemdir uppi um að fara í þessa framkvæmd einmitt núna og leggja í þann kostnað sem af þessu hlýst, ekki síst í ljósi þess að mig minnir að stefnt sé að því að loka spítalanum í Fossvogi árið 2016, þ.e. húsinu. Það er að vísu vitanlega háð því að framkvæmdir og annað gangi eftir þannig að það getur vitanlega breyst. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að allt gangi eins og í sögu og er gott að heyra að hið frábæra starfsfólk okkar í heilbrigðisþjónustu hafi staðist þessa prófraun.

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu tilefni til ýmissa spurninga í kringum þessa framkvæmd, í kringum breytingar á bráðamóttökunni, þar á meðal varðandi hjartadeildina. Við verðum að skoða hvort við komum því í aðra fyrirspurn því að hún á klárlega ekki heima hér.