138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

sameining á bráðamóttöku Landspítala.

351. mál
[13:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins bæta við af því tilefni sem hv. þingmaður nefndi hér, sem er fyrirhuguð nýbygging Landspítalans við Hringbraut þar sem vænta má einnar sameinaðrar bráðamóttöku í stað fjögurra sem nú eru og fimm áður, að ég tek undir þau orð hv. þingmanns um að það er óskandi að engar tafir verði þar á. Ég lýsi því yfir að ég hef ekki komið auga á neinn bakkgír í þeim vagni sem þar er á ferð, sem betur fer.

Við undirbúning sameiningar bráðamóttökunnar komu fram ábendingar og athugasemdir sérfræðinga í viðkomandi sérgreinum. Það snerti einkum hjartasjúklinga annars vegar og krabbameinssjúklinga hins vegar. Var tekið tillit til þeirra ábendinga við skipulagningu þjónustu við þessa tvo sjúklingahópa.

Það er auðvitað stöðugt endurmat í gangi og þegar nýir verkferlar eru settir af stað verður að fylgjast mjög vel með þeim. Álagsprófið var, eins og ég sagði, raunverulegt fyrstu dagana. Áður höfðu flest komið 340 manns á báðar bráðamóttökurnar á dag, ef ég man rétt, en þeim fjölgaði í 380 og það í fleiri en einn dag þessa fyrstu daga.

En þetta verður stöðugt í endurskoðun og er háð reynslunni í áframhaldandi rekstri.