138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

tekjur og tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf.

502. mál
[13:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Samkvæmt lögum nr. 6 frá 2007 er kveðið á um tekjur og tekjustofna Ríkisútvarpsins. Þar var afnotagjaldi breytt í útvarpsgjald og í V. kafla, þar sem fjallað er um tekjur Ríkisútvarpsins í 11. gr., segir svo með leyfi forseta:

„Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003 …“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig heimtur þessa útvarpsgjalds voru á árinu 2009, bæði hvað varðar einstaklingana og hins vegar hvað varðar lögaðila

Í öðru lagi langar mig að velta upp þeirri spurningu við hæstv. ráðherra hvort hún hafi íhugað að fella niður útvarpsgjald á lögaðila. Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að æðimargir einyrkjar sem hafa stofnað einkahlutafélög í kringum rekstur sinn eru hugsanlega iðnaðarmenn með rekstur og einir og sér, þeir hafa stofnað fyrirtæki í kringum rekstur sinn á annarri kennitölu en sinni eigin. Þeim finnst mörgum hverjum að þeir borgi í það minnsta tvöfalt útvarpsgjald. Þeir koma af heimili þar sem eru hugsanlega tvö börn yfir 18 ára aldri. Þar er, ef á heimilinu eru hjón og tvö börn, um að ræða ferfalt útvarpsgjald á því heimili, plús það sem einyrkinn greiðir sem lögaðili.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að Ríkisútvarpið nýtur opinberra styrkja að sjálfsögðu í gegnum útvarpsgjaldið og mikið hefur verið rætt um Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði: Er spurning hvort þess sé gætt í þjónustusamningi að þeir fjármunir sem ríkið veitir til útvarpsins séu nýttir í það sem kallast „almannaþjónusta“ og ekki nýttir til þess að fara í samkeppni við aðra fjölmiðla sem eru á markaði? Hefur úttekt verið gerð á þessu og erum við enn þá, eins og mér skilst, á undanþágu hvað þetta varðar?