138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

tekjur og tekjustofnar Ríkisútvarpsins ohf.

502. mál
[13:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Að þessu leyti vil ég minna á að ástæða þess að þessi þjónustusamningur var gerður á sínum tíma var auðvitað sú að það átti að fanga þetta almannaþjónustuhlutverk. Þar hefur til að mynda verið litið til svonefnds Altmarks-dóms Evrópudómstólsins sem hefur fordæmisgildi fyrir okkur EES-ríki og EFTA-ríki, og þar var ákveðið að fjárveiting til að standa straum af kostnaði við að veita opinbera þjónustu teldist ekki vera ríkisstyrkir ef ákveðin skilyrði væru uppfyllt samtímis.

Þar er kveðið á um í fyrsta lagi að heimild frá stjórnvöldum til að reka útvarpsþjónustu í almannaþágu verði að koma fram með lögformlegum hætti þar sem viðfangsefni almannaútvarps séu skilgreind. Þau geta verið víðtæk, þau geta falið í sér fjölbreytta dagskrá með upplýsingum, afþreyingu, íþróttum, og það skiptir máli, að mati eftirlitsstofnunarinnar, að tryggja að skilgreiningarnar séu eins nákvæmar og unnt er. Stjórnvöld þurfa líka að tryggja aðkomu sjálfstæðra innlendra eftirlitsaðila með almannaþjónustuhlutverkinu og viðfangsefnum almannaútvarpsins og það hefur líka verið reynt að uppfylla það með því að menntamálaráðuneytið hafi eftirlit í gegnum þennan samning. Í síðasta lagi þurfa stjórnvöld að tryggja að fjármögnun útvarpsþjónustu í almannaþágu sé í hlutfallslegu samhengi við kostnað og það að ríkisframlag megi ekki fara umfram kostnað við almannaþjónustu.

Við höfum upplýsingar frá Ríkisútvarpinu um kostnað við dagskrárliði og við getum sagt sem svo að að sjálfsögðu lítum við svo á að innlend dagskrárgerð og fréttir til að mynda, sem samanlagt eru u.þ.b. 2 milljarðar, séu hluti af almannaþjónustuhlutverkinu. Við erum með kostnað við dreifikerfi sem við getum litið á sem almannaþjónustuhlutverk. Það breytir því ekki að þar sem við erum með almannaútvarpsstöð, til að mynda á Norðurlöndum eða í Bretlandi, sem er ekki á auglýsingamarkaði, eru miklu hreinni skil á milli þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því, ríkisframlagið fer beint í það sem gert er og auglýsingatekjurnar koma þar ekki að. Að því leytinu til má segja (Forseti hringir.) að auðveldara sé að hafa þetta eftirlit en við leitumst að sjálfsögðu við það í gegnum (Forseti hringir.) eftirlitsskyldu okkar með þjónustusamningnum.