138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum vikum höfum við hv. þingmenn oft rætt um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mig langar að beina spurningum til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar vegna þess að í sjónvarpsviðtali á dögunum kom fram að hæstv. fjármálaráðherra hefði ákveðið að bæta 500 millj. kr. við verkefni á næsta ári sem eiga að fara í að viðhalda og endurbæta opinberar byggingar. Í fjárlögum ársins 2010 er gert ráð fyrir 2,7 milljörðum kr. en síðan fara í þetta 3,2 milljarðar kr. Því spyr ég hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, hvort honum finnist eðlileg vinnubrögð að þingið fái svona tilkynningar í fjölmiðlum, þ.e. að ríkisstjórn taki ákvörðun um að auka fé til ákveðinna framkvæmda sem ekki eru á fjárlögum ársins 2010.

Ég teldi eðlilegra, virðulegi forseti, að svona atriði kæmu fyrir þingið í heild sinni sem er fjárveitingavaldið sem gæfi þá leyfi fyrir því að fara í þetta verkefni, burt séð frá því hvert verkefnið er. Það hefur líka margoft komið fram í skýrslum frá Ríkisendurskoðun það agaleysi sem á sér stað í ríkisfjármálum. Það er oft bent á að Alþingi tekur ákvarðanir um fjárlög og síðan gerir framkvæmdarvaldið allt aðra hluti. Framkvæmdarvaldið fer ekki eftir því sem Alþingi ákveður.

Því beini ég þeirri spurningu til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem er formaður fjárlaganefndar hvort þetta séu ekki óeðlileg vinnubrögð og hvort við þurfum ekki að breyta þeim, ekki bara tala um að breyta þeim heldur láta núna verkin tala og breyta þessu þannig að framkvæmdarvaldið fari eftir því sem þingið ákveður.