138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir athugasemd hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um agaleysið í fjárlögum. Í langan tíma hefur það verið regla á Íslandi að framkvæmdarvaldið hunsi vilja Alþingis á hverju ári þrátt fyrir að í stjórnarskránni standi að engu fé megi ráðstafa úr ríkissjóði án fjárlaga eða fjáraukalaga. Þetta er því ekki bara brot á fjárlögum, þetta er brot á stjórnarskránni.

Það er mjög mikilvægt að auka aga í öllu þjóðfélaginu. Hrunið kennir okkur að við verðum að gæta þess að fara að fjár- og fjáraukalögum, að sveitarfélög fari að þeim áætlunum sem þau gera, og einstaklingar og fyrirtæki sömuleiðis. Menn þurfa að viðhafa miklu meiri aga í fjármálum. Við erum með mörg dæmi um það. Ég varpa t.d. inn í umræðuna að 30. desember á síðasta ári samþykkti Alþingi lög um Icesave en það er ekki orð um þessa risaupphæð í fjárlögum eða fjáraukalögum. Samt var frumvarpið samþykkt sem lög frá Alþingi. Þetta ætlum við að leggja til hliðar og láta gleymast.

Ég nefni það að Harpa, nýja tónlistarhúsið, er ekki á fjárlögum. Menn eru að fela fjöldann allan af útgjöldum og menn ætla að halda áfram á þeirri braut með því að byggja háskólasjúkrahús sem enginn á að borga. Það dettur allt í einu af himnum ofan og er gjöf til Íslendinga frá einhverjum. Þetta er agaleysi og menn eru að plata sjálfa sig.