138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í ræðustól til þess að vekja athygli á því ástandi sem er að skapast í Evrópu og hvernig það gæti haft áhrif á okkur Íslendinga. Við höfum öll fylgst með Grikklandi, hvernig ástandið þar hefur stöðugt verið að versna og hvernig ríki Evrópusambandsins hafa dregið lappirnar við að koma Grikklandi til bjargar. Kannski gera þau það með réttu því að þau eru ekki í svo góðri stöðu sjálf hvað varðar skuldamálin.

Nú hefur Grikkland verið fært niður í ruslflokk hvað varðar fjárfestingareinkunn. Portúgal hefur ekki fylgt jafnstíft á eftir en hefur þó fylgt þannig að nú er búið að lækka fjárfestingareinkunn þess auk þess sem ástandið á Ítalíu og Spáni fer hríðversnandi. Noriel Roubini, hagfræðingur og prófessor við háskólann í New York, benti á það með réttu í gær að ástand varðandi skuldastöðu hinna þróuðu ríkja er stöðugt að versna.

Ég hef velt því fyrir mér mikið undanfarna daga hvort það geti verið að þeim sem hafa trúað blint á að nýr gjaldmiðill, evran, muni bjarga Íslandi eða hefði yfirleitt getað bjargað Íslandi ef hún hefði verið hér sem lögeyrir, sé eitthvað að snúast hugur. Jafnframt hef ég velt því fyrir mér hvort ríkisstjórn Íslands hafi eitthvað hugleitt þessi mál eða hvort hún flýtur sofandi að feigðarósi vegna þess að það verður erfitt að fá fjármögnun (Forseti hringir.) í heiminum á næstu árum.