138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir svörin hér áðan. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, samstaðan og samheldnin í fjárlaganefndinni er góð og mikil. Þar höfum við öll skilning á því verkefni sem við ætlum að taka okkur fyrir hendur og þar er líka vilji hjá því fólki sem þar situr til þess að breyta þeim vinnubrögðum sem verið hafa við lýði hér í allt of langan tíma. Við erum búin að ræða þetta frá fyrstu fundum nefndarinnar og ég velti þessu upp áðan vegna þess að í fréttatilkynningu og í frétt sem ég vísaði til áðan ákvað ríkisstjórnin að bæta við hálfum milljarði í ákveðin verkefni. Ég var ekkert að setja út á verkefnin sem slík. Ég hefði talið það eðlileg vinnubrögð að hæstv. fjármálaráðherra hefði sagt að hæstv. ríkisstjórnin hygðist leggja til við Alþingi að hún mundi samþykkja viðbótarframlag í ákveðin verkefni. Það tel ég eðlileg vinnubrögð. Það er mjög áhugavert að lesa skýrslur ár og áratugi aftur í tímann þar sem Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt vinnubrögð og agaleysi í fjármálum ríkisins.

Það sem ég benti hér á, virðulegi forseti, er að í raun og veru höfum við ekkert lært. Við komum hér upp hvert á fætur öðru, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, og segjum: Þessu verðum við að breyta. En samt verður engin breyting. Mín skoðun er sú að núna verðum við að fara að tala minna og gera meira, ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Eins og ástandið er núna þegar við þurfum að skera niður á mjög viðkvæmum stöðum, verður Alþingi að vera alveg klárt á því í hvaða verkefni peningarnir eiga að fara. Síðan á ekki að hringla með það í hvaða átt á að fara, hvort heldur sem það varðar gott eða vont málefni. Það verður þá (Forseti hringir.) leggja það fyrir Alþingi til samþykktar.