138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil leggja orð í belg um aga við fjárlög og leyfa mér að vera aðeins bjartsýnni en hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem tók málið upp og sagði að ekkert mundi breytast. Ég held nefnilega að ýmislegt muni breytast í þessu og tel reyndar að ýmislegt hafi nú þegar breyst vegna hrunsins. Ég nefni t.d. Landspítala – háskólasjúkrahús, ég tel að menn taki mjög faglega á fjárlögum innan þeirrar stofnunar og reyni að halda sig innan rammans.

Ég held að stofnanir séu að bæta sig vegna hrunsins en við þurfum auðvitað líka að bæta okkur hérna. Það er rétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði, það er búið að tilkynna verulega ígjöf, reyndar í gott verkefni, viðhald á opinberum byggingum sem skapar atvinnu o.s.frv., en þetta kemur ekki inn í þingið til afgreiðslu fyrst heldur er það afgreitt af hæstv. fjármálaráðherra, væntanlega með fyrirvara um að Alþingi samþykki það síðar. Þetta er það sem hefur viðgengist hér mjög lengi og enginn flokkur er undanskilinn, hér með talinn Vinstri grænn vegna þess að núna er hann við völd.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundað þetta, Framsóknarflokkurinn hefur stundað þetta, Samfylkingin hefur stundað þetta og núna Vinstri grænir, sem sagt að fara eiginlega fram hjá þinginu og taka ákvarðanir sem þingið á svo að stimpla, og ekki bara um fjárlögin heldur líka ýmsa stóra samninga. Hér nefndi hv. þm. Pétur Blöndal Icesave-samninginn. Það var skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis, skrifað upp á gríðarlega háar upphæðir.

Þetta þarf að ræða. Hvernig vill þingið hafa þetta? Þingið vill ekki láta stilla sér upp við vegg og þurfa að stimpla allt eftir á. Það þarf að finna farveg til að koma þessum málum í lag.

Það er rétt sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði, þetta er gamli tíminn. Við þurfum að fara út úr honum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við verðum að bindast samtökum um að gera það. Annaðhvort verður fjárlaganefnd að koma með hugmyndir eða við verðum að setja (Forseti hringir.) þetta í einhvern annan farveg. Ég tel að við getum ekki haft þetta svona áfram eins og þetta hefur verið.