138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er komið nóg af frestunum, ekki bara á Vestfjörðum heldur alls staðar. Eins og ég gat um hér áðan í flutningsræðu minni hefur allt frá hruninu haustið 2008, sama hvaða ríkisstjórn það hefur verið, fé til vegaframkvæmda verið skorið niður, alveg sama hvort það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða Samfylkingar og Vinstri grænna. Þetta er liður í fjárhagslegri endurreisn. Þetta er liður í því að koma ríkissjóði fyrir vind og minnka hallann. Það þekkir hv. þingmaður vel og hefur rætt um þessar framkvæmdir sem fulltrúi í fjárlaganefnd.

Hann ræðir um Dýrafjarðargöng. Ég tek það skýrt fram og skal ítreka það sem ég sagði hér áðan. Hér er ekki verið að slá nein Dýrafjarðargöng af heldur frestast öll verk. Ég get kannski komið að því síðar í dag, virðulegi forseti, hvað verðlag hefur hækkað. Gera menn sér t.d. grein fyrir því að verðlag frá 2007 til 2010 í vegamálum hefur hækkað um 66%? Það tekur í. Þegar verk verða dýrari og skorið er niður þarf að taka fé innan áætlunar, ekki kemur nýtt, og þá færist annað aftar. Það er bara því miður hinn kaldi veruleiki.