138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svör ráðherrans. Það kemur fram í innganginum og síðar í skjalinu mikilvægi þess að byggja upp umhverfislega sjálfbærar samgöngur og tengist 20/20 áætlun ríkisstjórnarinnar. Aftar í greinargerðinni kemur fram að stefnt er að um 30% samdrætti losunar bæði í sjávarútvegi og samgöngum fyrir 2025. Þess vegna stoppa ég við þegar ég les í gegnum markmiðin um umhverfislegar, sjálfbærar samgöngur að þar er hvergi sett fram hvernig á að ná markmiðum um 30% samdrátt losunar innan þessa tímabils til 2025. Í staðinn er talað um að breyta skattlagningu eignarhalds þannig að umhverfisvænir bílar verði fýsilegri kostur en nú er, það verði unnið að breytingum á kröfum í útboðum með það að markmiði að auka hlut vistvænna ökutækja í sérleyfisakstri.

Ég spyr: Hver er ástæða þess að hæstv. ráðherra tekur ekki (Forseti hringir.) afdráttarlaust af skarið ef ætlunin er að gera þetta og þá nákvæmlega hvernig hann sér fyrir sér að draga úr losun?