138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Er hæstv. samgönguráðherra farinn úr salnum? (Gripið fram í: Þetta var utanríkisráðherra.) Já, hann svarar nú ekki neinu af viti oft og tíðum og alla vega ekki um vegamál, held ég. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Ég er ekki viss um það, en ég kem til með að spyrja hæstv. utanríkisráðherra á morgun um önnur mál.

Ég ætlaði í upphafi máls míns að beina tveimur spurningum til hæstv. samgönguráðherra sem ég mun þá bara geyma. Það sem ég vildi segja í upphafi — og þar kemur hæstv. samgönguráðherra. Mig langar að byrja á því að beina tveimur spurningum til hæstv. samgönguráðherra. Annars vegar af því að mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því nógu afgerandi áðan, og kannski hafði hann ekki tíma til þess, hvort hann telji það koma til greina að setja sérstök lög um veglagninguna á sunnanverðum Vestfjörðum eða hluta af henni, þ.e. aðallega í Gufudalssveit. Telur hann það koma til greina vegna þeirra hörmunga sem þar hafa gengið yfir og dóma hvort heldur sem var í héraðsdómi eða Hæstarétti sem rekast hver á annars horn? Ég ætla ekki að fara að rekja þá hér, nógu miklum tíma hefur verið eytt til að fara yfir þá.

Ég velti því reyndar fyrir mér, virðulegi forseti, að hefði það ekki staðið í úrskurði hæstv. umhverfisráðherra á sínum tíma að vitnað hefði verið í umferðaröryggislög þá átta ég mig ekki á hvernig dómur Hæstaréttar hefði getað orðið í framhaldi af því vegna þess að það var mjög sérkennilegt hvernig það var.

Síðan vildi ég líka fá að spyrja hæstv. ráðherra bara af einskærri forvitni. Það vakti athygli mína að á bls. 86 þar sem talað er um öryggismyndavélar, um eftirlitsvélarnar, kemur fram að ekki sé svigrúm til að kaupa fleiri vélar — það eru sem sagt tveir starfsmenn hjá sýslumanninum í Stykkishólmi sem sjá um þessi verkefni, þ.e. sjá um um eftirlit og úrvinnslu gagna — en svo stendur neðst á blaðsíðunni að gert sé ráð fyrir allt að tveimur stöðugildum vegna úrvinnslu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra til að eyða öllum vafa um það: Stendur til að færa þetta verkefni frá þeirri stofnun sem hefur sinnt því hingað til? Þetta gæti hugsanlega verið einhver örlítil hræðsla, maður er hvekktur þessa dagana þegar verið er að flytja störf af landsbyggðinni, en spurt er til að taka allan efa um það.

Virðulegur forseti. Mig langar að koma aðeins inn á örfá málefni. Við munum að sjálfsögðu ekki fara í tæmandi umræðu um málið í fyrri umr., það mun koma til hv. samgöngunefndar þar sem nefndin mun fara vel yfir samgönguáætlunina og senda hana til umsagnar og þar fram eftir götunum, og menn munu því fara yfir málið hér á hálfgerðu hundavaði. Mig langar hins vegar að fylgja því eftir sem ég spurði hæstv. ráðherra um áðan og fara aðeins yfir það sem gerðist árið 2007 þegar ákveðið var að fara í sérstakar aðgerðir vegna aflabrests. Ein af þeim framkvæmdum var veglagning yfir Fróðárheiði. Henni er að hluta til lokið, virðulegi forseti, en það þarf að ljúka henni. Eftir voru peningar sem átti að nýta til að klára uppkeyrsluna að norðanverðu en síðan eru þeir teknir út í þeirri samgönguáætlun sem hér er lögð fram. Því velti ég fyrir mér, virðulegi forseti, hvernig við í raun og veru vinnum slík verkefni. Við tökum ákvörðun um það vegna ákveðins forsendubrests í samfélaginu að fara í ákveðna hluti, annars vegar í vegagerð eins og Fróðárheiði, Suðurstrandarveg sem er núna á þessari áætlun, og hins vegar í viðhaldsverkefni og þar fram eftir götunum og svo er nánast, eftir því sem ég best veit, öllum þessum verkefnum lokið nema einu sem er lagning vegar yfir Fróðárheiði. Hvernig stendur á því að klára á sum verkefni af þeim sem farið var í á ákveðnum forsendum en önnur ekki? Að mínu viti, virðulegi forseti, gengur þetta ekki upp.

Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á sameiningu sveitarfélaga, sem ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað eru samgöngumálin forsenda þess að hægt sé að sameina sveitarfélög. Menn hafa rætt það t.d. á Vestfjörðum hvort alvara sé í því að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum í eitt sveitarfélag án þess að búið sé að koma á vegasambandi milli norðanverðra Vestfjarða og sunnanverðra. Menn verða að ræða þetta í þessu samhengi. Hæstv. samgönguráðherra er mikill áhugamaður um sameiningu sveitarfélaga og það er allt af hinu góða, en þess vegna vil ég rifja upp að gefnu tilefni að 1994 var sveitarfélagið Snæfellsbær eina sveitarfélagið sem sameinaðist í fyrstu umferð og þegar íbúarnir spurðu: Hvernig á að sameina t.d. Staðarsveit og Breiðavíkurhrepp og kaupstaðina að norðanverðu við jökulinn í eitt sveitarfélag og gera það að þjónustusvæði ef Fróðárheiðin er ekki fær? Þá var auðvitað svarið frá stjórnvöldum á þeim tíma — þá sat ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (Gripið fram í.) ætli það hafi ekki verið Alþýðuflokkur á þeim tíma, afsakið — þá var hæstv. núverandi forsætisráðherra félagsmálaráðherra og svaraði því eðlilega að auðvitað yrði að klára þennan veg til að sveitarfélagið gæti sameinast og virkað sem ein heild því að sækja þarf löggæslu, heilsugæslu, brunavarnir og þar fram eftir götunum á milli þessara kjarna. Þetta hefur verið þröskuldur í því og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að setja þetta inn og klára þetta verkefni. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess líka að þegar þetta fór inn á vegáætlun, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, með ályktun á árinu 2007 vegna ákveðinna forsendna, þá verðum við að standa við það gagnvart þessu.

Síðan langar mig að koma örlítið inn á það sem ég vakti máls á áðan gagnvart sunnanverðum Vestfjörðum. Við þekkjum alla þá sögu, þetta hefur staðið yfir í áraraðir, verkefnum hefur alltaf verið frestað. Það er ekki hæstv. samgönguráðherra að kenna að það hafi gerst, heldur eru það málaferlin og það sem við þekkjum og ég ætla ekki að eyða tíma í það eins og ég sagði áðan. Þess vegna hafa á undanförnum átta árum verið lagðir 55 km á öllu þessu svæði, 55 km af nýjum vegi, og það er nánast eingöngu að kenna þeim hörmungum sem við höfum lent í og málaferlum út af atriðum sem þar komu upp. Þess vegna er mikilvægt að menn stigi skrefið og segi: Til að við getum byggt þarna sæmilegan veg, því að það deilir enginn um það, hvorki hér í þingsal né úti í samfélaginu öllu að sunnanverðir Vestfirðir eru algerlega afskiptir í samgönguframkvæmdum. Sunnanverðir Vestfirðir og íbúar þar og fyrirtæki búa við allt önnur skilyrði hvað varðar samgöngur en allir aðrir íbúar landsins og það verður að koma því í lag. (Utanrrh.: … í Árneshreppi.) Já, reyndar í Árneshreppi, það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra. En eigi að síður er þetta verkefni sem verður að fara að klára. Reyndar eru í þessari áætlun á árunum 2011 og 2012 ákveðnir peningar í það og ég fagna því að sjálfsögðu, en maður er líka hugsi yfir því hversu langt við munum komast áfram í verkefnum. Munum við geta farið í þetta verkefni eða hefur Vegagerðin hugsað sér að fara upp á hálsana á þessu svæði, sérstaklega Gufudalsheiði? Hefur Vegagerðin hugsað sér að gera það? En þá erum við hugsanlega ekki að tala um heilsársveg því að þetta er mjög illfært og torfært yfir vetrartímann. Síðan á að afleggja, það er talað um að þegar búið verður að byggja veginn upp varanlega muni ferjusiglingarnar hætta, a.m.k. ríkisstyrktar. Og þá er spurningin: Erum við komin með þennan veg eða ætlum við að láta leiða okkur upp hálsana með miklu verri veg en ef við settum hreinlega, eins og ég sagði áðan, lög frá Alþingi um það hvernig vegurinn eigi að vera. Það er ekki flóknara í mínum huga, því að þetta verkefni og vegkafli þarna er alveg hreint með ólíkindum hvernig hefur gengur með.

Í lokin vildi ég segja það — maður verður líka að gæta sanngirni — að auðvitað er hæstv. samgönguráðherra ekki öfundsverður af því að koma saman samgönguáætlun til að þóknast öllum, maður verður að vera sanngjarn gagnvart því, með þá fjármuni sem eru hér. Hæstv. samgönguráðherra hefur á árinu 2011 6 milljarða, á árinu 2012 6,5 milljarða með þeim fyrirvara að reiknað er með í áætlun að það sé um 10% skerðing á milli ára. Síðan á náttúrlega eftir að samþykkja þetta á Alþingi. Ég verð því ítreka það í restina að hæstv. ráðherra er ekki öfundsverður af því.

Að lokum fagna ég þó því sem hér kemur fram og það eru ábendingar sem við höfum fengið og rætt í hv. samgöngunefnd um að fara, eins og stendur á bls. 2 í samgönguáætluninni: „Leitað verði ódýrra leiða til að leggja bundið slitlag á umferðarlitla vegi.“ Þetta tel ég mjög gott að sé hér inni vegna þess að það er verið að byggja upp vegi og leggja í mjög mikinn kostnað til að hækka hámarkshraðann fyrir margfalt meira fé. Dæmi eru um búið sé að leggja kannski bundið slitlag á vegi í ákveðna dali, kannski upp á einn fjórða af þessum kafla sem við gætum hugsanlega verið búin að klára ef við hefðum tekið þessa stefnu fyrr. Ég fagna þessu sérstaklega, virðulegi forseti.