138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans í fyrri umr. um samgönguáætlun. Þar var margt mjög skynsamlega sagt og það er eðlilegt að þingmaðurinn tali fyrst og fremst um sitt svæði. Þannig hefur það alltaf verið og það er bara ágætt. Þar hafa menn mesta þekkingu og við sem sitjum annars staðar hlustum þá á, (Gripið fram í.) alveg eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem þarf líka að hlusta vel á það sem hér er sagt til að fræðast um samgöngumál jafnt á Vestfjörðum sem á Norðausturlandi eða Suðurlandi.

En af því að sunnanverðir Vestfirðir hafa verið gerðir að umtalsefni hér þá tek ég heils hugar undir það sem þingmaðurinn sagði áðan. Ég hef áður sagt að þetta er sennilega og ekkert sennilega, þetta er sá landshluti sem býr við verstar samgöngur. Hv. þingmaður spyr mig út í sunnanverða Vestfirði, hvort ég telji að hægt sé að setja sérlög um framkvæmdirnar í Barðastrandarsýslu. Það er einn af möguleikunum en hann er frekar erfiður og líka kæranlegur að mati lögfræðinga.

Eins og ég sagði áðan hef ég átt fund með sveitarstjórnunum á þessu svæði, og fer á íbúafund, þar sem við erum að teikna upp og setja þá valkosti sem eru fyrir hendi til að leggja það bara á borðið fyrir íbúana. Ég var mjög hlynntur leið B, láglendisvegi niður við sjó, og var mjög svekktur yfir úrskurði Hæstaréttar þó að við unum að sjálfsögðu alltaf hæstaréttardómi. Það er einn valkostur. Hann getur hins vegar tekið 3–5 ár þar með talið í gegnum dómskerfið og jafnvel lengri tíma ef mikið verður að gera hjá Hæstarétti sem ýmislegt bendir til eða hjá dómstólum.

Þá er það leið D, þ.e. eins og hv. þingmaður nefndi, yfir hálsana. Það er möguleiki. Það er verri kostur umferðarlega séð, þá förum við aðeins hærra upp, en þar væri hugsanlega hægt að byrja á framkvæmdum strax í haust. Þetta eru þeir valkostir sem við stöndum frammi fyrir plús sá þriðji sem hv. þingmaður nefnir og það ætla ég að ræða við íbúana og það er ég tilbúinn að ræða við þingmenn kjördæmisins með Vegagerðinni (Forseti hringir.) vegna þess að ég tel að okkur sé ekkert að vanbúnaði við að fara að taka ákvörðun, þetta liggur allt ljóst fyrir. Nú þarf að taka ákvörðun um hvaða leið menn vilja fara.