138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum er mjög mikilvægt verkefni og tengir líka saman Vestfirðina í heild sinni bæði með Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöngum. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að tafirnar sem hafa orðið þarna í áranna rás eru orðnar óþolandi. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni þá er á síðustu 8 árum búið að leggja 55 km af nýjum vegi á öllum sunnanverðum Vestfjörðum, 55 km. Þetta segir allt um málið. Það þarf ekki að halda langar ræður um það vegna þess að í raun og veru kalla þessar upplýsingar fram þær staðreyndir.

Hæstv. ráðherra benti áðan á að ég hefði sagt að það væru engir 6 milljarðar og 6,5 milljarðar á árinu 2011 og 2012. Það sem ég átti við með því var að á árinu 2011 er þegar búið að ráðstafa í þau verkefni sem núna eru hafin 1,5 milljörðum þannig að heildarskiptingin á árinu 2011 eru 6 milljarðar. Af árinu 2012 er búið að ráðstafa hálfum milljarði af þeim verkefnum sem nú eru í gangi. Þar af leiðandi eru ekki nema 6,5 milljarðar í þau verkefni eða nýframkvæmdir sem þessi samgönguáætlun tekur til. Það var það sem ég var að benda á í ræðu minni áðan.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan og ég tek undir með honum að næstu forgangsverkefni eru verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru búin að bíða í áraraðir eins og að tengja saman norðanverða og sunnanverða Vestfirði.