138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að mikilvægi Árneshrepps í byggðum landsins er gríðarlegt. Virðulegi forseti, hæstv. ráðherra sagðist vera mjög ánægður með þessa samgönguáætlun en fór síðan í seinni hluta ræðunnar að setja dálítið út á hana og beindi því til hv. samgöngunefndar að breyta henni og ég held að við tökum öllum áskorunum um það, alla vega ég persónulega.

Ég held líka að ef við værum að ræða í alvöru að æskilegt væri ef menn hefðu brugðist við með öðrum hætti en verið hefur vegna þess að í þessari samgönguáætlun er mikill niðurskurður á þjónustu Vegagerðarinnar sem er eitt af því sem íbúar Árneshrepps hafa bent okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis og fleirum á og gert athugasemdir við að þeir hefðu talið að hægt væri að moka oftar og með öðrum hætti en nú er. Það hefur reyndar komið fram í umfjöllun á Alþingi í vetur og haust að eitt af þeim hlutverkum sem Vegagerðin skoðar ásamt hæstv. samgönguráðherra er að gera þessar mokstursreglur sveigjanlegri og mannlegri, ekki hafa þær alveg niðurnegldar þannig að menn geti ekki farið út fyrir reglurnar á nokkurn hátt. Það verkefni er verið að vinna og maður bindur vonir við að eitthvað gerist í því.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni: Þetta er fyrri umr., maður hefur 10 mínútur í ræðu og nær að sjálfsögðu ekki að fara nema á hundavaði yfir nokkur atriði á hverju svæði. Ég hélt mig nánast eingöngu við mitt kjördæmi en það er fullt af atriðum sem ég vildi ræða frekar hvort heldur sem það er Laxárdalur, Uxahryggir, Lundarreykjadalur eða þar fram eftir götunum sem eru mjög aðkallandi verkefni eins og Uxahryggirnir og Lundarreykjadalurinn til að byggja upp þá öflugu ferðaþjónustu sem er að skjóta rótum þar þannig að það er nóg af verkefnum en það vantar bara meiri peninga. Það eru því mörg verkefni sem þarf að ræða hér í langan tíma.