138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra notar tímann til að minna á litla hreppi og lítil sveitarfélög sem eru mikilvæg, ég fagna því og tek undir með hæstv. utanríkisráðherra. Árneshreppur er eitt af þeim og auðvitað er hárrétt sem hann bendir á og mér er fullkunnugt um að í tengslum við þá öflugu ferðaþjónustu sem er að byggjast þar upp hafa okkur þingmönnum kjördæmisins verið send skilaboð um hve mikilvægt er t.d. að þjónusta vegina meira með mokstri og þar fram eftir götunum til að hægt sé að efla uppbyggingu áfram.

Ég vil líka taka fram að hæstv. utanríkisráðherra stóð sig einstaklega vel þegar hann var byggðamálaráðherra. (EKG: Þá var hann í svo góðri ríkisstjórn.) Þá var hann í svo góðri ríkisstjórn, já, segir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Þegar hæstv. utanríkisráðherra starfaði sem iðnaðarráðherra stóð hann sig vel og ferðaðist mikið og er ekkert upp á hann að klaga.

En á þessum erfiðu tímum hefði kannski verið skynsamlegra núna ef við hefðum ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu. Þá hefðum við kannski getað verið búnir að malbika í Árneshreppi. (Gripið fram í: Hvar er hægt að fá peninga ...) Virðulegi forseti. Ég er eiginlega viss um þó að ég ætli ekki að fullyrða það að íbúar Árneshrepps hefðu frekar viljað fara í vegagerð í hreppnum en eyða þessum peningum í umsóknarferli að Evrópusambandinu. Það hefði verið betur ef hæstv. utanríkisráðherra hefði haft samband við þá ágætu íbúa þar og hlustað eftir því sem þeir vildu. En að öllu gamni slepptu er mjög mikilvægt að menn sinni öllum þeim verkefnum sem fyrir liggja við uppbyggingu vegakerfisins. Mikil vinna er eftir í hv. samgöngunefnd og ég mun að sjálfsögðu ásamt öðrum þingmönnum leggja mig fram um að gera mitt til að verða að gagni.