138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem út af fyrir sig skýrðu ýmislegt. Varðandi framkvæmdirnar 2010, án þess að ég sé neitt að reyna að gera lítið úr því, þá er það auðvitað þannig að hluti af því eru afleiðingar af því að hafist var handa við miklar framkvæmdir á árunum 2007 og 2008 sem standa fram á árið 2010. Ég vek t.d. athygli á Bolungarvíkurgöngum, sem við hæstv. samgönguráðherra köllum svo. Vinna við þau var hafin á tilteknum tíma og ekki var hægt að hætta því í miðju kafi, það blasir við. Það var búið að gera slíka samninga víða um land.

Það eru hins vegar ólýsanleg vonbrigði að heyra það að slík meinbægni sé uppi að ekki sé hægt að heimila að hefja framkvæmdir strax á þessu ári við vegagerð á kaflanum frá Eiði við Vattarfjörð að Þverá í Kjálkafirði. Ég geri mér grein fyrir því að ekki er hægt að leggja þennan veg að öllu leyti með hliðsjón af umhverfismati en það er með ólíkindum, og til marks um ótrúlegan þvergirðingshátt og aulagang í kerfinu ef það er þannig að úr því að hæstv. umhverfisráðherra hafði úrskurðað í þessum efnum sé ekki hægt að taka nýja ákvörðun í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og í ljósi þeirrar sanngjörnu óskar, sem kemur fram frá okkur þingmönnum ýmsum og heimamönnum, um að hefja framkvæmdir á þessum afmarkaða 10–12 km kafla.

Nú er það þannig að vonandi er að ljúka í haust vegagerð á kaflanum frá Vatnsfirði að Þverá í Kjálkafirði að vestanverðu. Það væri þyngra en tárum taki, þar sem þörfin er mest, að hlé verði á framkvæmdum á þessum slóðum. Ég skora aftur á hæstv. samgönguráðherra, hann hefur minn fulla stuðning í því að gera enn betur í því — ég veit að hæstv. ráðherra er mjög áhugasamur um framkvæmdir á þessu svæði — þannig að hægt sé að hefja þessar framkvæmdir núna. Við vitum að þó að útboðið færi fram í byrjun næsta árs værum við ekki að tala um að hefja framkvæmdir þar fyrr en einhvern tíma á vormánuðum. Og það, virðulegi forseti, er allt of seint.