138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi tiltekna framkvæmd fór í umhverfismat og síðan í kæruferli. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt áðan þegar ég vísaði í úrskurði þáverandi umhverfisráðherra sem var um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt þeirri löggjöf. Sagt var að öryggismál væru hluti sjálfbærrar þróunar og þar liggur þessi lagatæknilega deila. Það er staðreynd og því hefur reyndar verið hafnað, eins og hv. þingmaður segir, á ólíkum forsendum fyrst í héraðsdómi og síðan í Hæstarétti sem er hinn endanlegi dómur. Við breytum honum ekki. Við verðum að sætta okkur við dóminn hvað sem okkur finnst um hann.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað er málið fast en ég hygg að hægt sé að leysa það í samvinnu eins og öll mál ef vilji er fyrir hendi. Ég veit að það er ekki einfalt en ég vara við því að þingmenn komi upp og biðji um sérlög um sérstakar framkvæmdir. Ég get ekki séð hvar sú umræða mundi enda í þessum sal. Hún gæti farið mjög illa og ekki orðið til þess að gæta hagsmuna fólks. Ég leyfi mér að segja að fordæmisgildið yrði slíkt að þingstörf mundu enda í óefni. Hver maður mundi koma upp með einhverja tiltekna framkvæmd, væntanlega í sínu kjördæmi eða ekki og krefjast sérlaga. Ég held það, frú forseti.