138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að til stæði að fara í töluverðar vegaframkvæmdir hugsanlega ef samkomulag næðist við lífeyrissjóðina, svokallaðar einkaframkvæmdir eða lífeyrissjóðsleið, og þá yrði það gert út frá þeirri arðsemiskröfu sem gerð er til slíkra framkvæmda, en í vegáætluninni núna til ársins 2014 eru þetta um 33 miljarðar og eru það nokkur verkefni. En mig langar að spyrja hv. þingmann betur út í það hver sé skoðun hennar á veggjöldum eða vegtollum vegna þess að ég tel að menn þurfi að ræða þetta mun meira en gert hefur verið. Mér finnst ekkert réttlæti í því að ef við leggjum veg hvort sem það er Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur eða Reykjanesbraut, þá greiði þeir aðilar sem keyra þann veg vegtoll en aðrir þar sem verið er vinna vegaframkvæmdir ekki. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Hver er skoðun hennar á því, ef maður setur þetta í nánara samhengi, að fólk sem býr í Hveragerði og þarf að keyra til Reykjavíkur í vinnu á hverjum degi gæti þurft að borga hugsanlega töluverðar upphæðir í vegtoll til að það fáist að fara í þessa framkvæmd á Suðurlandsvegi? Ég held að þetta þurfi að ræða mjög ítarlega. Síðan er líka spurningin: Gæti vegtollur verið mismunandi eftir því hvar menn keyra, hvort þeir keyra Vesturlandsveg, Suðurlandsveg eða Reykjanesbraut eða hvar sem það er? Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Að lokum er ein til viðbótar: Hver er skoðun hv. þingmanns á því, telur hún koma til greina eða er hún sammála mér um það að Alþingi þurfi að setja lög um það hvernig standa skuli að lagningu vegar á suðurhluta Vestfjarða til að koma þeim málum í það horf sem þau þurfa að vera?