138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Ég er reyndar ekki sáttur við þau öll, sérstaklega hvað það varðar að hv. þingmaður er ekki tilbúin að styðja það að sett séu lög um þetta eina verkefni sem á sér svo langa sögu. Ég harma það að ekki skuli vera samkomulag um það í hópi hv. þingmanna í Norðvesturkjördæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hún kom inn á veggjöldin og það sé hægt að útfæra þau alla vega, og menn segjast vera að vinna eftir einhverri áætlun hjá AGS en eru samt sem áður að skuldbinda. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér ef fara ætti að setja veggjöld, er það skoðun hv. þingmanns að það megi vera mismunandi veggjald á mismunandi stöðum sem gæti þá komið sér illa fyrir einn íbúa en ekki annan? Við höfum við ekki góða reynslu af þessu eins og varðandi Hvalfjarðargöngin. Gjaldið í Hvalfjarðargöngin er óréttlátt gagnvart þeim aðilum sem nota þau en síðan er verið að framkvæma annars staðar á landinu þar sem menn þurfa ekki að borga vegtoll. Ég held að við þurfum að ræða þetta miklu ítarlegar og dýpra hvernig menn sjá þetta fyrir sér.