138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum samgönguáætlun sem í minni sveit þótti afar spennandi og eftirsótt rit sem menn biðu eftir í ofvæni ekki síður en ritinu Frey eða kannski í nútímanum jólabókaflóðinu. Margt gott er í þessari ágætu samgönguáætlun og þar á meðal finnst mér markmiðin fimm sem þar eru sett og ýmis undirmarkmið mjög af hinu góða. Sérstaklega má nefna þar að í fyrsta markmiðinu um greiðari samgöngur er sérstaklega talað um almenningssamgöngur, reiðhjólanotkun og vinnu gegn flöskuhálsum. Í öðru markmiðinu þar sem talað er um hagkvæmni og uppbyggingu er ég mjög ánægð með d-liðinn um að leitað verði ódýrra leiða til að leggja bundið slitlag á umferðarlitla vegi. Þetta er atriði sem okkar fólk fyrir austan hefur barist lengi fyrir og ég vona svo sannarlega að verði að veruleika. Í þriðja markmiðinu um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, er talað um mismunandi skattlagningu á bílum eftir því hvaða eldsneyti þeir nota sem ég held að sé mjög af hinu góða. Í fjórða markmiðinu er talað um öryggi og minnst á rannsóknir sem ég held að geti skipt mjög miklu máli, því að stundum erum við að miða svona við hyggjuvitið og það getur verið gott að hafa ákveðnar rannsóknir. Síðan er fimmta markmiðið, sem mér er kannski hvað kærast, um jákvæða byggðaþróun þar sem talað er um sóknaráætlunina sem ég bind miklar vonir við og hvernig verkefnum verður forgangsraðað þar og horft til mikilvægis einstakra framkvæmda til að skapa heildstæð atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði sem ég held að skipti mjög miklu máli. Ég vona svo sannarlega að þessi góðu markmið í bland við hina ágætu sóknaráætlun sem er í gangi verði til þess að við fáum í raun og veru markvissari byggða- og atvinnustefnu fyrir allt Ísland því að á því þurfum við svo sannarlega að halda.

Mig langaði aðeins til að ræða um þá áherslu sem hér kemur fram á almenningssamgöngum, sem ég tel mjög af hinu góða, og þar ættum við að nýta öll þau tækifæri sem gefast og þar finnst mér að þéttbýlið á suðvesturhorninu eigi að fá ákveðinn forgang af því að það form samgangna er afar heppilegt og hagkvæmt á svo þéttbýlu svæði. Svo get ég ekki annað en hreykt mér aðeins af mínu kjördæmi og bent á að bæði Akureyri og Fljótsdalshérað hafa í nokkur ár gert sér grein fyrir því hversu góður ferðamáti almenningssamgöngur eru og bjóða því upp á gjaldfrjálsar ferðir, ekki síst af umhverfislegum og fjölskyldulegum ástæðum. Ég held að önnur sveitarfélög gætu lært af þessum ágætu sveitarfélögum.

Hér hafa eðlilega verið dálítið til umræðu mismunandi fjármögnunarleiðir til samgönguframkvæmda, svo sem með aðkomu lífeyrissjóða, til að geta farið í stórar framkvæmdir á niðurskurðartímum. Það eru auðvitað ákveðnar markaðslegar forsendur sem liggja til grundvallar í slíkum einkaframkvæmdum og það er mjög eðlilegt að þar sem markaðslegar forsendur eru sé horft til suðvesturhornsins en þar með tel ég að við verðum að líta svo á að það fjármagn sem ríkið hefur úr að spila núna hljóti að mestu leyti að verða nýtt á landsbyggðinni. Ég held að við eigum að halda því talsvert á lofti.

Mig langar aðeins til að ræða frekar um þá jákvæðu byggðaþróun sem við viljum stefna að. Á þessum erfiðu tímum tölum við talsvert um sameiningu stofnana, við tölum um sérhæfingu og við tölum um sameiningu sveitarfélaga, en til þess að þetta megi verða eru greiðar samgöngur algert lykilatriði, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Það þýðir mjög lítið að tala um sameiningu stofnana og ákveðna sérhæfingu þeirra ef fólk kemst trauðla á milli. Ég held að með því að orðið sé þægilegt að fara á milli staða megi hagræða mikið því að fólk er tilbúið til að aka talsverðar vegalengdir á öruggum vegum svo ekki sé talað um í öruggum jarðgöngum.

Síðasta áratug eða svo eða jafnvel lengur hafa sveitarstjórnarmenn á Austurlandi sameinast um að mikilvægasta samgöngubót í fjórðungnum séu Norðfjarðargöng. Austfirðingar eru orðnir talsvert langeygir og þurrir í augum eftir að rýna eftir þeim göngum því að handan við þau göng er fjórðungssjúkrahúsið okkar í útjaðri sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og göngin eru í raun og veru bara eins og hver annar vegur á milli hverfa í þéttbýli. Við Austfirðingar höfum verið mjög dugleg við að hagræða og sameina stofnanir og má þar nefna að Heilbrigðisstofnun Austurlands er búin að vera til sem ein stofnun fyrir allt heilbrigðiskerfið á Austurlandi mjög lengi, Skattstofa Austurlands einnig. Við erum því mjög tilbúin að vinna að hagræðingu og til að vinna saman en við erum orðin ansi langeygð eftir samgöngubótum. Og núna þegar lýst hefur verið yfir vilja til að sameina Austurland í eitt sveitarfélag verða þessi göng og samgöngubætur á Austurlandi afar mikilvægar. Svo við tökum dæmi sem er mér mjög eðlilegt, er staðan t.d. þannig núna að austfirsk kona sem ætlar að ala afkvæmi á þann kost einan fyrir austan að gera það á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað, því að engin önnur fæðingardeild er frá Akureyri til Selfoss. Og kona sem ætlar að eignast barn um miðjan vetur á Seyðisfirði þarf að byrja á því að fara yfir hæsta fjallveg landsins frá Seyðisfirði yfir á Hérað, síðan þarf hún að fara yfir leiðinlegan flöskuháls sem heitir Fagridalur, þá þarf hún að fara um Hólmaháls og loks um Oddsskarð en þar eru sem sagt jarðgöng sem ættu náttúrlega að vera á minjaskrá, þau eru einbreið með blindhæð og í 600 metra hæð. Ég held að við þurfum að setja okkur svolítið í þessi spor, hvort sem það er kona í barnsnauð eða einhver með sprunginn botnlanga eða annað slíkt, að þetta er í raun og veru algerlega óásættanlegt ástand þær samgöngur sem við búum við.

Það er mikil gleði að sjá að Norðfjarðargöngin eru á dagskrá þó að ég verði að viðurkenna að gleðiópin eru mjög hófstillt því að þetta eru ekki stórar fjárhæðir sem við sjáum en eftir sem áður er allt betra en ekkert og þau eru komin á dagskrá. Það skiptir mjög miklu máli.

Austfirðingar eru, eftir framkvæmdirnar við Kárahnjúka þar sem við horfðum á bora fara í gegnum fjöll, mjög uppteknir af því hvort ekki sé komið að nýrri tækni. Mjög metnaðarfullar hugmyndir hafa verið uppi um það að tengja allt Miðausturland með jarðgöngum og frá því erum við ekki horfin þó svo að það sé viðurkennt að Norðfjarðargöng séu fyrsti áfanginn og vonandi verða göng undir Fjarðarheiði þau næstu. En við þurfum að gæta þess vel að jarðgangagerð þarf alltaf að vera í gangi til þess að við viðhöldum þekkingu og þróum reynslu og nýja tækni.

Ég hlakka sérstaklega til að sjá nýja samgönguáætlun þegar sóknaráætlunin er fullgerð, ég er viss um að við fáum að sjá þar markvissari framkvæmdaröð, um leið og við stefnum að því að samgöngur á Íslandi verði sjálfbærar og öruggar alls staðar.