138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:22]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Vík ég að nokkrum atriðum í samgönguáætlun. Í fyrsta lagi er ekki útlit fyrir neina seinkun á opnun Landeyjahafnar. Samkvæmt verkáætlun og stöðu verktakans Suðurverks á að vera hægt að opna höfnina til siglinga 1. júlí. Það er viðmiðunin sem verktakinn stendur enn við. Síðan geta komið upp frávik og skiptir í rauninni engu máli hvort það eru einhverjir dagar til eða frá í þessu dæmi en rétt er að miða við það jákvæðasta þó að reikna megi með því sem er slakara.

Það eru ákveðin atriði eftir í sambandi við lokahnykkinn á Landeyjahöfn. Það er að tryggja að gerð verði þar einhvers konar vígi fyrir smábáta sem munu augljóslega og örugglega þurfa að leita til Landeyjahafnar. Enginn mun geta komið í veg fyrir að litlir bátar komi þar inn og þá verður auðvitað að vera aðstaða til að þeir geti farið í eitthvert var innan hafnarinnar og lagt að einhverri flotbryggju eða slíku sem er ekki stórt mál. Þetta er ekki síst öryggisþáttur varðandi Landeyjahöfn, öryggi sem verður að vera til staðar þannig að björgunarsveitir geti athafnað sig við fullkomna aðstöðu í höfninni ef eitthvað kemur upp. Það er skylda Tryggingastofnunar að skila höfninni þannig og ríkisvaldsins að fylgja því eftir og tryggja það. Það á eftir að tryggja það. Vonandi klárar hæstv. samgönguráðherra það mál snarlega því að sjálfsagt er að gera þessa aðstöðu sem þarf að gera og kostar einhverja tugi milljóna af verkefni sem kostar 4.500 milljónir. Það er mikilvægt að gera það strax á meðan tækjabúnaður er til staðar og er miklu ódýrara en fara í verkið eftir eitt, tvö eða þrjú ár og kannski á tíma sem einhver slys hefðu orðið sem menn vildu ekki að hefðu átt sér stað.

Það er mikið fagnaðarefni að hafist skuli handa við tvöföldun Suðurlandsvegar. Eftir stendur — og er ekki tryggt í því útboði sem nú er — að lagfæra frá Lögbergsbrekku og upp að Litlu kaffistofunni, vonandi til bráðabirgða en það er nauðsynlegt að gera það strax, breikkun á vegakerfinu yfir Svínahraun þar sem enn þá eru 2+1 sem getur aldrei orðið til frambúðar. Það er lágmark að breikka þar vegina þeim megin sem akreinin er einbreið því að þar hafa komið upp mikil vandamál í ófærð og öðru á leiðinni. Þetta fjallaði hæstv. ráðherra um sl. haust að yrði gert og þarf að tryggja það strax. Það er ekki hægt að bíða með að breikka þessar akreinar þannig að ef bíll bilar þá stoppi ekki umferðin um Suðurlandsveg, hvort sem það er rúta eða eitthvert tæki af stærri gerðinni sem kemst ekki út í kant því að það eru of brattir leggir frá veginum.

Það er mikið fagnaðarefni að brúin við Hvítá og Bræðratunguvegur séu á lokastigi. Lyngdalsheiði sér fyrir endann á. Þetta eru allt mikilvæg verk og spennandi. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra að því hvort ekki sé alveg kristaltært að Suðurstrandarvegur verði boðinn út í haust. Ýmislegt hefur verið gefið í skyn en nú er rétt að fá þetta kristaltært. Nú er komið svo nærri ákveðinni ákvörðun eftir langa bið og ef verkið er boðið út í haust er hægt að byrja á því strax eftir áramót. Tæplega einn þriðji af verkinu er eftir. Það er bara einn áfangi og þess vegna er ekki eftir neinu að bíða en að klára það því að ekki er hægt að vera með dýrt verk hálfklárað, fyrir utan hvað það skiptir miklu máli fyrir alla umferð í Suðurkjördæmi og landsmenn alla.

Það skiptir líka miklu máli og er hlutur sem hlýtur að vera áhyggjuefni hjá hæstv. samgönguráðherra að flýta eins og kostur er útboðum á verkum. Tugir verktaka í landinu með mikla reynslu og góðan tækjabúnað sitja auðum höndum og það fjarar undan öllu þessu bákni okkar hægt og sígandi. Það er dýr fórn vegna þess að auðvitað er flóð og fjara í öllum þessum þáttum en það þarf að gæta þess að það sé eins mikið jafnvægi og hægt er. Það vantar mörg smærri verk og stendur upp á samgönguráðherra að leysa það mál með ríkisstjórninni og taka af skarið þannig að höggið minnki og menn sitji ekki uppi strandaðir með góðan tækjabúnað, mikla reynslu, lítinn yfirkostnað o.s.frv.

Það er líka spurning hvenær fjármagns frá lífeyrissjóðunum er að vænta. Þetta er orðið þannig að lífeyrissjóðirnir eru eins og eitthvert „apparat“ í þessu dæmi sem getur ekki tekið af skarið og dregur lappirnar. Mér finnst ekki hægt að kalla það annað. Lífeyrissjóðirnir eru sjálfir með hugmyndir um hvernig þeir ætla að fá greidd lánin sem þeir ætla að setja í verk. Það er ekki þeirra hlutverk að ákveða hvort það eigi að vera veggjöld eða ekki. Það er stjórnvalda að gera það. Þessu er öllu ruglað saman og það er tortryggilegt og gengur auðvitað ekki. Hvenær er að vænta þess fjármagns sem lífeyrissjóðirnir hafa a.m.k. í orði boðist til að leggja í framkvæmdir?

Það er eitt líka varðandi Landeyjahöfn: Það er mjög brýnt að tímasetja hvenær ákveðið verður að byggja nýja ferju. Munstrið í innsiglingu inn í Landeyjahöfn er níu ára sveifla í dýpi. Næstu tvö árin, 2011 og 2012, má vænta að dýpið verði mest og svo fer það grynnkandi næstu sjö árin og strax eftir tvö ár fer aðstaðan fyrir núverandi Herjólf að verða til vandræða. Það var nóg á sínum tíma þegar Herjólfur sem nú er 20 ára gamall eða þar um bil var byggður og þáverandi hæstv. samgönguráðherra Steingrímur J. Sigfússon lét minnka skipið, sem var teiknað samkvæmt öldumælingum og öllum þarfagreiningum, um nær 10 metra til að hægt væri að bjóða það út á Akureyri. Akureyringar buðu síðan 1.700 milljónir í það en Norðmenn 1.100 milljónir og auðvitað var því tilboði tekið. Þá buðust Norðmenn til að byggja skipið í réttri stærð, 79 metra langt fyrir 1.140 milljónir, 40 milljónir í viðbót, en hv. núverandi fjármálaráðherra hafnaði því. Þetta hefur kostað ómælda peninga, lengri siglingatíma, verri sjóhæfni o.s.frv. Svona dellur eru ótrúlegar í okkar samgöngumálum og það má ekki henda núna að menn klári ekki það verk sem lagt er af stað með og hefur verið unnið vel að. Ég minni á að hæstv. samgönguráðherra var með mér í þingsályktunartillögu sem ég flutti um upphaf Landeyjahafnar svo honum rennur blóðið til skyldunnar. (Gripið fram í.) Já, já, en það þarf að klára það og klára það vel og ekki með neinum bakföllum.

Ég spyr um Hornafjarðarfljót: Hvar stendur Hornafjarðarfljót? Ég spyr um Grænás: Mér er kunnugt um að Vegagerðin reiknaði með að bjóða Grænásverkefnið út eftir fjórar vikur. Það er búið að tímasetja það og 65 milljónum er ætlað í það verk núna og síðan undirgöng á næsta ári. Þarna þurfa að koma mislæg gatnamót en er leyst a.m.k. næstu 10 árin með hringtorgi og þarna er tenging við 1.800 manna byggð í Reykjanesbæ svo það skiptir miklu máli.

Mig langar líka að spyrja hæstv. samgönguráðherra um Sundabraut sem er gleymd og grafin og er mikilvægt verkefni á höfuðborgarsvæðinu fyrir allt land til að minnka og losa úr pirringi höfuðborgarbúa í umferðinni sem er óþolandi mikill, (Gripið fram í.) geðillska og vandræðagangur. Mig langar líka að spyrja um gatnamótin við Kringlumýrarbraut sem skipta miklu máli. Svo má spyrja: Hvar í fjarskanum eru Uxahryggir, Kjalvegur og Sprengisandur? Varðandi sjóvarnargarðinn í Vík í Mýrdal skiptir miklu máli að flýta því verki eins og kostur er. Það er vika síðan það mál fór inn til umhverfisráðherra til undirskriftar á aðalskipulagi. Vonandi tekur það ekki nema nokkra daga og þá eiga hlutirnir að geta gengið eftir nokkuð hratt þannig að hægt sé að fara að vinna fyrir næsta vetur við varnargarðinn í sjóvörninni í Vík í Mýrdal sem skiptir miklu máli.

Ég vil í lok þessari lotu segja: Ef 200 kr. veggjald er sett á Reykjanesbraut kostar það Reyknesing sem vinnur daglega í Reykjavík 100.000 kr. á ári. Það er enginn smápeningur svo þetta er hlutur sem þarf að skoða í fullri alvöru og gengur ekki upp þegar grannt er skoðað með tilliti til mismununar við þegna landsins.