138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:35]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við Eyjamenn göngum til leiks, hvort sem er í knattspyrnu eða öðru, tökum við tapi — eða sigri — eins og vera ber. Við urðum undir í jarðgangaþættinum — um sinn — en það er alveg morgunljóst og tryggt að jarðgöng munu verða byggð milli lands og Eyja. Eins og Esra heitinn í Lukku sagði eru þau bara bisness, hann seldi milljón lunda til Texas og það eru veiddir 100.000 lundar í Vestmannaeyjum.

Jarðgöngin munu koma. Ég vænti þess að hæstv samgönguráðherra muni á sínum tíma — (Samgrh.: … verður samgönguráðherra þá.) Já, það er allt í lagi. Ef það verður klárað get ég lofað því. En þótt Landeyjahöfn teygist í 1–2 vikur skiptir það engu máli að mínu mati, bara að það sé í lagi. Ef reynt yrði að opna 1. júlí mætti búast við að ekki yrðu öll mannvirkin alveg fullkomlega klár, hvorki fyrir farþega né annað, en þau yrðu brúkleg. Það verður bara að koma í ljós, það skiptir ekki öllu máli, en á þessum tímapunkti eru 1–2 vikur til eða frá ekki málið að mínu mati. Það skiptir hins vegar miklu máli að klára þennan þátt með smábátana og öryggisþáttinn, tryggja að menn geti rennt fleytu á sjó, tekið hana upp á lítilli braut og lagt að flotbryggju sem yrði innan einhvers skarðs sem Siglingamálastofnun er sem betur fer að hanna og þarf að setja inn í þennan pakka þannig að það fari ekki á milli mála.

Þetta er mikilvægt og ég held að við þurfum að gæta þess að vanda til þessa verks þannig að ekki sé áratugum saman hægt að naggast út í ef eitthvað hefur farið úrskeiðis áður en upp var staðið.