138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Þetta er mikið rit sem ég hvet landsmenn alla til að kynna sér því að hér er gríðarlegan fróðleik að finna fyrir utan þá áætlun sem liggur fyrir. Ég er í langflestum tilvikum mjög hlynntur því sem hér er sett á blað.

Af hverju er það svo að samgöngumál eru landsmönnum, ekki síst fólki úti á landi, svona hugleikin? Hægt er að staldra við nokkrar tölur í þessu mikla plaggi og mig langar, virðulegi forseti, að byrja á tölu sem er aftarlega í plagginu. Frá árinu 1996 hafa 298 Íslendingar týnt lífi í umferðinni, 298 Íslendingar frá árinu 1996. Á sama tímabili hafa rétt tæplega 2.500 Íslendingar hlotið alvarlegan skaða, langvarandi skaða af bílslysum á Íslandi. Það er af þeim sökum sem umferðaröryggismál, bættari vegir, greiðari leiðir eru ofarlega á baugi á Íslandi og ekki síst úti á landi.

Af hverju skyldu þessi málefni, frú forseti, vera svona ofarlega á baugi úti á landi, meira en kannski tíðkast í hinni ágætu Reykjavík? Hér er aðrar tölur að finna sem vert er að minnast. Þjóðvegir í Suðvesturkjördæmi og í Reykjavíkurkjördæmi eru 328 kílómetrar, þjóðvegir í landsbyggðarkjördæmunum eru u.þ.b. 12.500 kílómetrar — 12.500 kílómetrar í samanburði við 328 kílómetra þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er kannski ein ástæða þess að samgöngumál eru jafnofarlega á baugi úti á landi og raun ber vitni. En aðalástæðan fyrir því að samgöngumál eru svona ofarlega á baugi úti á landi er sú að þar snúast samgöngumál um það að komast á milli staða, hér syðra í höfuðborginni þar sem Alþingi Íslendinga er staðsett snúast samgöngumál miklu fremur um að komast hraðar á milli staða eða öruggar á milli staða. Þetta verðum við að hafa skýrt í huga þegar við fjöllum um samgöngumál á öllu Íslandi.

Hvort heldur við horfum til fiskverkenda á Tálknafirði eða á Vopnafirði snúast samgöngur um það hvort hann geti rekið viðskipti sín heima í héraði. Kemst fiskverkandi frá Tálknafirði með afurðir sínar á Brjánslæk og þaðan með ferju yfir Breiðafjörð? Er fært jafnvel að sumri? Kemst fiskverkandi á Vopnafirði með afurðir sínar upp á heiðar frá Vopnafirði, jafnvel að sumri? Er fært? Þetta eru þær spurningar sem snúast í höfði íbúa víða úti á landi um þessar mundir, á árinu 2010, jafnvel þótt gríðarlegar framfarir hafi orðið í samgöngumálum þjóðarinnar og hvert Íslandsmetið í framkvæmdum hafi reyndar verið slegið á undanliðnum tveimur, þremur árum, sem ég vil nota tækifærið og hrósa hæstv. samgönguráðherra sérstaklega fyrir, framgöngu hans á þessu sviði á síðustu árum.

Í þessu plaggi er forgangsraðað og það var tími til kominn. Hér í þessu plaggi hlýt ég t.d. að nefna að síðasti Ó-vegurinn er að baki. Sá sem hér talar er gamall fréttamaður og hefur flutt ótölulegan fjölda af fréttum, alvarlegum slysum, banaslysum á þeim Ó-vegum sem hér hafa verið illu heilli, í Ólafsvíkurenni, Óshlíðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla. Í þessu plaggi eru Ó-vegirnir að baki. Ég vil bara þakka fyrir það. Ég vil bara þakka fyrir það fyrir hönd íbúa þessa lands að þeir vegir séu loks að baki vegna þess að samgöngumál snúast líka um mannréttindamál. Þau snúast um það að komast yfirleitt á milli staða en þau snúast öðru fremur um það að komast örugglega á milli staða.

Tillaga þessi til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun er samfléttuð sóknaráætlun 20/20 og það er vel. Ég lít svo á að einn meginþunginn í sóknaráætlun 20/20 fyrir byggðir landsins, allar byggðir landsins, snúist ekki síst um samgöngumál. Mín hugmynd er sú, og ég veit að það er hugmynd fleiri þingmanna og sveitarstjónarmanna um allt land, að efla sveitarstjórnarstigið til mikilla muna og þar skipta vegamál, hafnamál og flugmál sköpum. Það eru nokkur atriði sem skipta byggðir landsins öllu máli. Ég vil staldra þar við fjögur atriði: Fjölbreytt atvinnulíf, styrk grunnþjónusta, samgöngur, og að byggðarsvæði í heildrænum búningi verði styrkt með tilliti til styrkingar sveitarstjórnarstigsins og þar skiptir höfuðmáli að tengja svæðin. Við lesum um það í þessu ágæta plaggi, sem er upp á nálega 100 blaðsíður, að víða er verið að tengja svæði og þetta er að mínu viti og fleiri sem starfa í þessu húsi lykilatriði í sóknaráætlun hinna dreifðu byggða og hinna þéttbýlli byggða. Ég vil nefna nokkur atriði, nokkur forgangsatriði sem blasa við í þessari þingsályktunartillögu.

Suðurstrandarvegur og Lyngdalsheiði, hvort tveggja dæmi um tengingar, hringtengingar í samgöngumálum sem skipta sköpum í atvinnutilliti, í ferðatilliti og í auknum lífsgæðum íbúa á svæðinu. Ég nefni líka Bræðratunguveginn yfir Hvítá að Flúðum, ég nefni veginn um Þröskulda, sem er nýlegt dæmi um vissa hringtengingu. Ég nefni Héðinsfjarðargöngin, sem er glæsilegt dæmi um hringtengingu og nú skulum við vona að stutt göng komi yfir í Skagafjörðinn undir skarðið góða hvar menn lögðu vegi í frítímum sínum á öldinni sem leið. Ég nefni í því tilliti hringveginn um allan Tröllaskaga sem ég held að þingmenn Norðausturkjördæmis og Norðvesturkjördæmis ættu að berjast fyrir, ekki bara í atvinnutilliti heldur líka ekki síst hvað varðar ferðaþjónustuna jafnt að vetri sem sumri. Ég nefni samgöngin fyrir austan sem verða gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf þegar þar að kemur og vitaskuld eru Norðfjarðargöng komin á dagskrá, sem er vel. Ég nefni líka hugmyndir um hringveg um þann mikla jökul Vatnajökul sem yrði gríðarleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á því svæði en vitaskuld eru þær áætlanir ekki enn þá komnar á dagskrá. Hringtengingar í vegamálum eru gríðarlega mikils virði, í rauninni ættu allir hæstv. samgönguráðherrar að hafa það í huga að endastöðvar í byggðamálum eru alltaf í hættu í byggðalegu tilliti og þess vegna eru hringtengingar eitthvað sem skiptir sköpum.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið áfram í allan dag að tala um þetta mikilvæga plagg. Ég er afskaplega hrifinn af mörgu því sem þar kemur fram því að hér er verið að forgangsraða. Ég sé að þingmenn Norðvesturkjördæmis leggja gríðarlega áherslu á suðurfirðina, leiðina milli Flókalundar og Bjarkalundar. Þingmenn Norðausturkjördæmis leggja gríðarlega áherslu á Norðfjarðargöng og þingmenn Suðurkjördæmis leggja ofurkapp á Suðurstrandarveg. Þannig held ég að við eigum að vinna samgönguáætlun hverju sinni í sátt þingmanna um hvað er efst á baugi. Í mínu tilfelli eru það vitaskuld Norðfjarðargöng þar sem er glataður og afgamall vegur á milli hverfa í 630 metra hæð, þar sem er að finna einu jarðgöngin (Forseti hringir.) á Íslandi með blindhæð.