138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2009–2012. Hægt er að eyða mörgum orðum um þessa áætlun þó ekki hafi gefist mikill tími til að sökkva sér ofan í lestur áætlunarinnar.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna. Í fyrsta lagi tek ég undir þær vangaveltur varðandi tengingu áætlunarinnar við aðrar, svo sem byggðaáætlun og sóknaráætlun, sem nefndar hafa verið. Það læðist að mér sá grunur að þessi áætlun sé ekki ósvipuð byggðaáætlun, þ.e. að verkefnum um sóknaráætlun sé ýtt á undan sér sem er miður því nú er full þörf á að koma fram með byggðaáætlun og heildstæða, góða samgönguáætlun sem skýrir og sýnir þá framtíðarsýn sem stjórnvöld hafa. Mér finnst vanta inn í þetta plagg, og margt annað sem kemur frá stjórnvöldum, sýn hvernig á að halda uppi atvinnu. Þar skipta ekki síst máli fyrirtæki og aðilar sem unnið hafa við vegagerð.

Samgönguáætlun er markmiðssetning fyrir þróun byggða og hvernig ríkisvaldið sér það fyrir sér. Ég er undrandi yfir því stefi sem hér er slegið vegna þessa. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, er ljóst að það á ekki að beita vegaframkvæmdum til að ná skriði á efnahagslífið, þ.e. framkvæmdum og öðru. Það er miður því nú er tækifæri og að sjálfsögðu átti að reyna allar leiðir til þess að blása lífi í framkvæmdir, það skilar mjög miklu til samfélagsins.

Það eru ákveðnir þættir í áætluninni sem snúa að höfnum og flugvöllum sem ég þarf að skoða betur. Það eru ekki síður mikilvægir samgönguþættir fyrir landið en vegirnir sem við eyðum mestum tíma í að ræða, enda þarf að setja mesta fjármuni í þá.

Gott væri að fá upplýsingar, gæti verið að þær komi fram síðar, um framtíðarsýn ráðamanna varðandi styrki til flugs og ferjusiglinga. Ef ég hef skilið það rétt sem hér stendur er ekki sýnt hvernig áætlunin muni þróast til 2012, heldur kemur eingöngu fram hve mikið fer í niðurgreiðslur á þessu ári. Það er mjög mikilvægt að styrkir til flugs og ferjusiglinga haldi áfram. Það er alveg ljóst að meðan ríkið kemur sér ekki til þess að fara í Vestfjarðaveg er mjög mikilvægt að ferjusiglingar yfir Breiðafjörð dragist ekki meira saman en nú þegar hefur orðið. Ég veit að það á einnig við um aðrar ferjusiglingar. Þetta eru lykilsamgöngur fyrir þessa staði.

Varðandi flugsamgöngur þá er flug styrkt til nokkurra staða. Tímasetningar eru á ákveðnum vegaframkvæmdum þar sem styrkir falla niður eftir að framkvæmdir eru búnar. Þetta snýst hins vegar ekki eingöngu um að skila farþegum á ákveðinn stað, þetta snýst líka um að fyrirtæki og stofnanir sem byggja upp störf víða á landsbyggðinni gera kröfu um að flytja til sín fólk, skjöl og fleira með stuttum fyrirvara og að komið sé til baka sama dag. Skertar flugsamgöngur geta haft áhrif á atvinnulíf með áþreifanlegum hætti.

Ég fagna fjármögnun til samgöngumiðstöðva á Akureyri og í Reykjavík. Ég vona að það sé staðfesting á því, svo ég tali fyrir mig persónulega, að flugvöllurinn verði á sama stað í borginni.

Tvo liði langar mig að nefna áður en ég tala um vegina, á bls. 70, sem snúa að reiðvegum og girðingum meðfram þjóðvegum. Það eru þúsundir manna sem stunda hestamennsku á Íslandi og þúsundir ferðamanna koma hingað til að fara á hestbak. Það er mjög mikilvægt fyrir þessa atvinnugrein — hestamennska er mikil atvinnugrein á Íslandi — að menn slái ekki slöku við varðandi öryggisþáttinn. Slysahættan er mikil og það þarf að girða og bæta vegi.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér: Hvar er Sundabraut, hvar er tvöföldun Vesturlandsvegar og annað í þessari áætlun? Ég sé ekki miklar áhyggjur varðandi þau verkefni. Ég sakna líka Fróðárheiði og Dýrafjarðarganga, eins og kom fram hjá þingmönnum áðan. Það er mikilvægt þar sem því hefur verið haldið fram að ekki sé búið að slá Dýrafjarðargöng af. Taka verður af skarið í meðförum nefndarinnar í eitt skipti fyrir öll og koma þeim aftur inn á áætlun því að þau eru ekki í henni. Búið er að taka þau út úr plagginu sem við erum með hér, hvort sem ætlunin er að seinka þeim eða fresta, það verður að koma í ljós. Það er óásættanlegt að við sjáum ekki hver framtíðarsýn þeirra er.

Ég sakna þess líka að sjá ekki inni veg nr. 74 sem heitir Skagastrandarvegur. Þetta er alveg ómögulegur vegur frá Blönduósi og út á Skagaströnd, ekki síst að Þverárfjallsvegi. Þarna er mikil umferð, vegurinn er bæði mjór og hæðóttur. Það er mikilvægt að við horfum til framtíðar og komum okkur saman um hvenær verður farið í þann veg, vitanlega sem allra fyrst.

Aðeins varðandi Vestfjarðaveg. Það er ekki miklu við það að bæta sem hér var sagt. Þessi vegur er okkur algjörlega til skammar og það lengi. Þar sem einn hv. þingmaður nefndi hér áðan að Ó-vegirnir væru að hverfa þá er þetta vegur með Ó-i fyrir framan vegna þess að hann er nánast ófær fyrir fólk sem býr þarna. Á veturna vegna snjóa, slabbs og slíkrar drullu og þegar rignir því þetta er bara leirvegur. Hérna verður að höggva á hnútinn sem kominn er með þennan veg, tala skýrt og klára þetta þannig að sómi sé að. Þá fyrst er hægt að tala um ferjusiglingar og annað þegar búið er að koma þessum landshluta í mannsæmandi vegasamband sem ekki er núna. Það er sorglegt að að ekki sé stigið stærra skref í áætluninni. Það er stigið ákveðið skref en það þarf að vera stærra.

Frú forseti. Annað verkefni sem ekki er tekið á, Siglufjarðarvegur nr. 76, Almenningar. Öllum sem hafa ekið þennan veg er ljóst að ekki verður lengur við unað. Í þessum töluðu orðum gæti vegurinn að stórum hluta farið fram í sjó eða eftir 10 eða 50 ár. Þetta er eins og púðurtunna sem beðið er eftir að springi. Þarna verða menn að tala saman hvernig á að leysa það mál.

Hér eru aðrir vegir sem ekki hafa verið nefndir sem eru miklir ferðamannavegir. Það er einnig búið á þessum stöðum sem ég ætla að geyma að fara yfir þar til síðar.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar til að tala um gjaldtökuna sem hér var nefnd. Ég sé ekki að tekið verði upp gjald á ákveðna íbúa landsins. Þá hljótum við að spyrja okkur, ef taka á gjald fyrir þá sem þurfa að aka Vesturlandsveg eða Suðurlandsveg: Er ekki rétt að setja gjald á þá sem keyra Reykjanesbraut, Miklubraut, Sæbraut eða aðra vegi? Kannski segi ég aðeins of mikið því að ég man ekki hvort Vegagerðin kemur að þessum götum öllum. Það hlýtur að vera sama krafan að notendur borgi þjónustu fyrir afnot gatna í þéttbýlinu. Mitt persónulega mat er að það sé eðlilegra, ef fara á í sérstaka fjáröflun fyrir vegina, að það sé þá gert með almennum hætti.