138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012. Þar er af ýmsu að taka, hvort heldur horft er til landsins í heild eða einstakra kjördæma. Mig langar í upphafi að velta fyrir mér hugmyndum um hið nýja Ísland. Nú eftir hrun er oft talað um hið nýja Ísland og hvernig við ætlum að byggja upp nýtt Ísland, ryðja burt siðspillingu og annað í þeim dúr. Ég vil velta upp hugmynd, sem hefur áður komið fram, og væri liður í því að byggja upp nýtt og betra Ísland. Eigum við ekki að horfa til samgöngumála og nota það fjármagn sem bifreiðaeigendur í dag greiða nú þegar í ríkissjóð, og leggja það til samgönguáætlunar? Ættum við ekki að taka höndum saman um að forgangsraða þeim verkefnum sem eru skynsamlegust, hagkvæmust og arðbærust hverju sinni fyrir landið í heild? Væri möguleiki, frú forseti, að hætta kjördæmapoti við samgönguáætlunargerð? Þá þyrftum við kannski ekki lengur að slást um hverja krónu sem fara á í þessa áætlun. Þetta gæti verið ný hugsun í hinu nýja Íslandi til að byggja upp það, sem margir segja að skipti meginmáli fyrir búsetu í landinu, en það eru öruggar og góðar samgöngur.

Mig langar líka að velta fyrir mér því sem stendur á bls. 18 í þessari áætlun og fær sérstaka fjármögnun samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Þar eru tilteknir nokkrir vegir og göng, m.a. tvöföldun Hvalfjarðarganga og Vaðlaheiðargöng og einnig er þar nefndur Vesturlandsvegur.

Þar er ég komin í kjördæmi mitt, sem er Suðvesturkjördæmi. Ég held að skýra þurfi nánar hvar Vesturlandsvegurinn er að hluta. (Gripið fram í.) Ég spyr vegna þess sem stendur á bls. 18 (Vesturlandsvegur), en á bls. 57 er talað um Vesturlandsveg að Hólmsá. Það skil ég vegna þess að þar er maður kominn inn á Suðurlandsveginn og þar er tenging frá Vesturlandsvegi á Suðurlandsveg. Síðan stendur: „Vesturlandsvegur 2+1 og mislægt.“

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða bútur er Vesturlandsvegur 2+1 og mislægt? Ljóst er að á fjárveitingu núna er tvöföldun Vesturlandsvegar frá svokölluðum Hafravatnsvegi, sem við Mosfellingar reyndar köllum Kóngsveginn, að Þingvallaafleggjara. Þar á Vesturlandsveginum er einnig unnið að sérstökum gatnamótum við Leirvogstungu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Á að halda áfram með það verkefni? Hvert er framlag einkafyrirtækjanna tveggja sem að verkefninu koma, sem eru Leirvogstunga ehf. og Ístak ehf., til gerðar þeirra mislægu gatnamóta og hvert er framlag Vegagerðarinnar?

Ég ætla að halda mig við eigið kjördæmi, á sama hátt og aðrir þingmenn, og fagna því sem gert er í Suðvesturkjördæmi. Ég nefndi hringveginn og ég er búin að spyrja um gatnamótin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um Vífilsstaðaveg og Arnarnesveg. Er verið að ljúka þeim verkefnum eða halda þeim áfram? Hvenær lýkur þeim? Ég fagna þessum verkefnum. Þau eru búin að vera í farvatninu æðilengi og eru tímabær. Þetta eru afar fjölmenn gatnamót, ef við getum orðað það svo, og umferð mikil. Það snertir öryggi þeirra sem um þessa vegi fara að haldið verði áfram að lagfæra þá. Ég fagna þessu fyrir hönd Suðvesturkjördæmis.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni skiptingu fjármagns í samgönguáætluninni. Ég horfi áfram til kjördæmanna, vegna þess að fjármagnið skiptist eftir kjördæmum.

Í þingsályktunartillögunni er áætlað að í Suðurkjördæmi fari 8,3 milljarðar á árinu 2009–2012. Í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi er áætlað að fari 6,7 milljarðar. Í Norðvesturkjördæmi, á þessu sama árabili, er áætlað að fari 10,4 milljarðar. Í Norðausturkjördæmi, á sama tíma, er áætlað að fari 13,7 milljarðar. (Gripið fram í.) Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra, án þess að gera lítið úr því á nokkurn hátt að samgöngur séu bættar vítt og breitt um landið, hvort við skiptingu fjárins sé arðsemi og hagkvæmni vega höfð í huga, eða hvort eitthvað annað ráði för? Ljóst er að þau þrjú kjördæmi, Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, þar sem stærsti hluti þjóðarinnar býr, bera minnst úr býtum í vegaáætluninni, ef við getum orðað það svo.

Þetta stafar sjálfsögðu af því að í þinginu er vinnulagið með þeim hætti að við hugum fremur að eigin kjördæmum heldur en landinu í heild. Þess vegna er fjármagn til vegagerðar með þessum hætti.

Að lokum, frú forseti, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um almenningssamgöngur almennt. Hann nefndi reiðhjólastígagerð. Er hún fyrst og síðast hugsuð hér á höfuðborgarsvæðinu eða er horft til landsins í heild? Hvert er fjármagnið sem á að fara í þessa gerð og hvernig skiptist það á milli landshluta?

Að auki langar mig að spyrja um reiðvegi. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að hestamennskan er ekki bara skemmtilegt tómstundagaman, hún er líka mikilvægur atvinnuvegur í landinu í dag. Áætlað er að setja í kringum 190 millj. kr. í reiðstíga frá 2010–2012. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að taka ákvörðun um aðkomu Landssambands hestamanna t.d. eða einstakra hestamannafélaga vítt og breitt um landið, um hvar eigi að bera niður? Hver er skiptingin á milli landshluta þegar reiðvegir eru annars vegar?

Frú forseti. Sjaldnast ríkir algjör sátt um samgönguáætlun. En ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur og horfa til þess að byggð sé í landinu og hægt sé að velja sér búsetu, þá þarf samgönguáætlun að vera fyrir landið í heild sinni, og hafa að leiðarljósi hagkvæmni og arðsemi. Við, þar með talin sú sem hér stendur, hv. 8. þm Suðvesturkjördæmis sem og aðrir þingmenn, þurfum einhvern tímann að hverfa frá einstaka kjördæmum til samgönguáætlunar fyrir landið í heild sinni.