138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig tilknúinn að koma í andsvar og nota tímann til að svara einhverjum af þessum spurningum, vegna þess að þetta var nánast eins og setið fyrir svörum.

Um margt hefur verið spurt og mér er ljúft og kært að svara. Ég vil minna á það sem ég sagði áðan, vegna upplýsinga sem komu fram hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, um að skatttekjur af umferð væru 30 milljarðar á ári. Hv. þingmaður Ragnheiður Ríkharðsdóttir vildi ræða hvort féð sem tekið er, fari eingöngu til samgöngumála eða ekki. Þannig var það ekki áður fyrr, en í dag deilum við hér út 110 milljörðum kr., í alla þætti að vísu, og það eru um 28 milljarðar á ári.

Ég hef fyrirvara á þessum tölum, vegna þess að þær eru ekki komnar frá mér og ég hef ekki skoðað þær þannig. Í langan tíma hafa skatttekjur af umferð verið meiri en varið hefur verið til vegamála. Verst var það auðvitað á þeim árum sem við viljum lítið tala um, þegar mikið var flutt inn af bílum. Ég sagði líka áður að við verðum að hafa í huga að auðvitað er það ýmislegt annað en umferð sem kostar í vegagerð.

Hv. þingmaður spyr um Vesturlandsveg. Vesturlandsvegur byrjar náttúrlega í Mosfellsbæ, en það er vegurinn upp að göngum sem er 2+1 vegur. Suðurlandsvegur frá Vesturlandsvegi að Hólmsá og áfram til Selfoss er sambland af 2+2 og 2+1 vegi, sú er skýringin. Hv. þingmaður talar um Vífilsstaðaveg og telur það afar brýna framkvæmd og því er ég algjörlega sammála. Þetta er í Garðabæ. Eindregin ósk kom frá bæjaryfirvöldum í Garðabæ um að gera gatnamótin breiðari og betri og hér er það sett inn. Við teljum okkur geta gert þetta en við komumst hins vegar ekki í verkið fyrr en 2011, því ég held að það þurfi að kaupa upp eins og eina sjoppu þarna til að rýma til fyrir þessu. Arnarnesvegur fær 500 millj. kr. árið 2012 en það dugar ekki til og verður að fá fjármagn þar á eftir. (Forseti hringir.)

Ég kem kannski inn á aðra þætti í því sem hér kom (Forseti hringir.) fram í seinna andsvari mínu .