138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:44]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er fínt að fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra og gott ef hann lítur svo á að hann sitji hér fyrir svörum, ég þakka honum þau öll.

Ég ætla ekki einu sinni að ræða fortíðina, frú forseti. Þegar ég velti fyrir mér hvernig við gætum nýtt fjármagnið þá var ég að hugsa um nýja Ísland. Við þyrftum að breyta um vinnubrögð í þessum málum og haga okkur með öðrum hætti en við gerðum áður. Það er svo margt í okkar samfélagi, í verkferlum, í stjórnsýslunni og annars staðar, sem miklu betur má fara. Ég held að við ættum því ekki að dvelja við fortíðina í þessu tilviki.

Ég fagna því ef ný hugsun ríkir í samgönguráðuneytinu, um að nýta betur en áður það fjármagn sem bifreiðaeigendur leggja inn. Við erum komin skrefi lengra í því að bifreiðaeigendur fái eitthvað fyrir það sem þeir greiða í ríkissjóð.

Ég spyr hæstv. ráðherra um Arnarnesveginn, því hann segir að þar þurfi aukafjárveitingu 2012. Væntum við þess að klára slík verkefni? Eða ætlum við að vera áfram, eins og svo oft hefur verið, í hálfgerðum bútasaumi? Eða setjum við fjármagnið í verkefnið, ljúkum því og byrjum á öðru verkefni síðar? Í mínum huga er það bæði hagkvæmara og arðsemin verður meiri, vegna þess að það kostar alltaf að hætta, flytja öll tæki á nýjan leik og byrja upp á nýtt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra reyni að svara þeirri spurningu minni.