138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:26]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða um þingsköpin en tek undir það að þetta er knappur tími.

Aðeins varðandi Vestfjarðavegi og sunnanverða Vestfirði. Ég tek undir það, það eru gríðarleg vonbrigði, en við skulum þó hafa það í huga vegna þess sem ég sagði hér áðan, að á sunnanverðum Vestfjörðum eru í gangi verk sem klárast í haust. Miðað við það sem ég sagði að öll verkin sem eru í gangi, kosta það mikið að við getum ekki bætt við fleiri verkum á þessu ári. Strax í byrjun janúar verður það hægt þegar losnar um. Við skulum vinna að fullum krafti, á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. vesturkaflanum sem við höfum gert hér að umtalsefni, við að klára umhverfismatið og vera tilbúin ekki seinna en í mars/apríl á næsta ári að bjóða út þann kafla. Það er áætlunin. Ég hef margrætt þetta á öllum fundum með Vegagerðinni. Það er vilji minn að þetta verði tilbúið þá. Þá seinkar okkur ekki nema kannski tvo, þrjá mánuði miðað við þessa stöðu. En við skulum vona að það gangi fljótt og vel fyrir sig. Við með tvo valkosti gagnvart Mjóafirði, annars vegar þverun eða fara inn fjörðinn. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr því, en við skulum vona að þessi áætlun, þetta umhverfismat, gangi hratt og vel fyrir sig.

Ég hef sagt það áður, virðulegi forseti, og segi það einu sinni enn – sennilega voru það mistök hjá okkur að hafa ekki farið strax í umhverfismatið. Við værum sennilega að klára það núna eða ættum kannski nokkra mánuði eftir, vegna þess að við gátum vitað það að þetta yrði sett í umhverfismat. Þær virðist vera mjög viðkvæmar þessar þveranir á þessum fallegu fjörðum og skerjum.

Varðandi kaflann sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Þó við séum að byggja veginn á sama stað, þá eru svo ofboðslega miklir efnisflutningar og skeringar og það þarf að fara í umhverfismat.

Varðandi tengivegina. Þá minni ég á það sem fram kemur sem er nýmæli og tel að eigi eftir að gagnast okkur mjög, þ.e. nýjar hönnunarforsendur fyrir fáfarna vegi, (Forseti hringir.) munum við ná miklu meiri árangri og fleiri kílómetrum í varanlegu slitlagi.