138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við þessum spurningum sem ég komst ekki yfir í ræðu minni: Hv. þingmaður talar að sjálfsögðu um nýjan Herjólf og talar um að í árslok 2011 verðum við komin með ágæta reynslu. Já, ég hygg að þetta séu bara ágætistímamörk, að þá verðum við komin með góða reynslu til að vega og meta hvernig ferju við eigum að byrja á. Er það nákvæmlega eins og við buðum út eða ætlum við eitthvað að breyta henni? Það er bara verkefni sem kemur núna við siglinguna og ég hef fullan hug á því að þar komi fleiri aðilar að, þ.e. aðilar sem eru vanir og eru að vinna við þetta og þekkja þetta út og inn.

Varðandi Hornafjarðarfljót, það get ég ekki sagt um, það er eitt af þeim verkum sem hafa færst aftar eins og Dýrafjarðargöng og fleiri atriði, en þau líta dagsins ljós í langtímaáætlun. Varðandi Svínahraun, 2+1 og lagfæringu á þeim kafla sem þar er, ég held að ég megi segja, virðulegi forseti, að ég muni það rétt að það er inni í útboðinu á Suðurlandsvegi. Ég held að ég sé ekki að misskilja það, mér finnst endilega að ég hafi heyrt að það sé lagfæring á því þar. Það kann að vera að ég sé að rugla við annan kafla en það verður bara að koma í ljós síðar og ég leiðrétti það þá.

Varðandi Sundabraut og Kringlumýrarbraut. Sundabraut er ekki hér inni og ég veit ekki hvernig það er, það er dýr framkvæmd, einkaframkvæmd sem talað var um, ekki gott að segja hvar hún verður inni. Mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut eru heldur ekki þarna inni. Ég hygg, virðulegi forseti, að það sem við erum að gera hér, ýmis atriði varðandi bætt umferðarflæði, skili miklum og góðum árangri hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að segja alveg eins og er að sú framkvæmd sem farið var í fyrir nokkrum árum, ég man ekki hve mörgum, á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, var ódýr og góð og virkar mjög vel. Við höfum m.a. séð það í tölum hve umferðarslysum þar hefur fækkað. Þetta var mjög góð aðgerð.

Sams konar aðgerð erum við að fara núna í varðandi Vífilsstaðaveg sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerði hér að umtalsefni. (Gripið fram í: Smábátahöfn?) — smábátahöfn í Landeyjahöfn, ég hef séð þau áform og allt það. Við skulum sjá hvernig því reiðir af með Landeyjahöfn. (Forseti hringir.) Ég man ekki hvaða tölur vantar enn þá inn í til að klára það verkefni, okkur vantar 100–150 milljónir ef ég man rétt. (Gripið fram í: 40.)