138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:37]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör. Gott að fá þessa staðfestingu varðandi Eyjaferjuna í árslok 2011.

Ég held hins vegar að það sé alveg klárt að lagfæring á 1+2 í Svínahrauni er ekki inni í útboðinu Lögbergsbrekka/Litla kaffistofan, það er ekki inni í því. Þess vegna þarf að huga að því og ég vona að hæstv. ráðherra geri það.

Varðandi smábátaaðstöðuna í Landeyjahöfn eru áform núna um að fara þar í byrjunarframkvæmdir sem mundu þá tryggja að aðstaða væri fyrir hendi og er áætlað að það kosti um 70 millj. kr. Það er alveg ljóst að það hefur ekki verið sett enn þá inn í pakkann um Landeyjahöfn en þetta er bara öryggisþáttur sem er ekki hægt að sleppa. Þetta er nákvæmlega það sama og að bátur færi á sjó án þess að björgunarbátur væri um borð, það er hvorki löglegt né leyfilegt. Þess vegna þarf að hnýta þetta upp núna á næstu vikum þannig að sá tækjafloti sem er að vinna þessi verk nýtist og þetta vinnist á hagkvæmastan og ódýrastan hátt, en réttir aðilar telja að þetta kosti plús mínus 70 milljónir. Er þá ekki tvíverknaður að sumu leyti, sem yrði ef það yrði ekki gert núna, og yrði í hagkvæmasta formi sem hægt væri.