138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð. Það er ýmislegt sem vakti áhuga minn í ræðu hans.

„Veitt frá sinni heimabyggð.“ Er það að veiða frá sinni heimabyggð að þurfa að færa kennitölu sína og fyrirtæki á annan stað til að geta róið þaðan eins og menn gerðu unnvörpum? Pósthólfin voru uppseld á pósthúsunum því að menn færðu „heimabyggð“ sína bara annað til þess að geta veitt. Þannig fór það nú.

Síðan var talað hér um samþjöppun og röskun byggða. Hvað er verið að gera með þessu frumvarpi eins og það lítur út? Færa atvinnuréttindi frá einum hópi til annars. 90% aflaheimildanna eru á landsbyggðinni. Er það til þess að treysta byggðirnar sem eru með þessar aflaheimildir? Alveg klárlega ekki.

Svo er mjög merkilegt það sem hér hefur verið sagt og verður að fjalla meira um: Þessi fullyrðing sem er kannski sönn að 70% þjóðarinnar hafi ákveðna skoðun á þessu. Ég er ekkert hissa á því, frú forseti, að 70% eða 80% þjóðarinnar líti á sjávarútveginn sem einhvers konar hóp af bófum og ræningjum þegar stjórnarflokkarnir, þingmenn og ráðherrar tala þannig. Hér hafa stjórnarliðar sumir hverjir frá því ég kom á Alþingi talað þessa atvinnugrein niður sýknt og heilagt, sérstaklega ráðherrar vil ég taka fram. Það er ekki sanngjarnt. Ég veit að hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur ekki verið í þeim hópi og líklega ekki formaður nefndarinnar heldur en hér hafa þingmenn talað þannig og það þarf ekkert að koma okkur á óvart að þjóðin bregðist við með slíkum hætti þegar svona bulli (Forseti hringir.) er haldið að henni.