138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:58]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skuli sjá ástæðu til þess að minnast á að talað sé niður til greinarinnar í andsvari við ræðu minni því að það hef ég aldrei gert og mun aldrei gera. Ég gaf ekkert tilefni til þess. Það sem ég held fram er að gefa öllum tækifæri, hafa breiða flóru og opna fyrir einyrkjunum, litlum útgerðum með fleiri mönnum, millistórum útgerðum og stórútgerðum, þannig að allir geti nýtt þau verðmæti sem felast í hinum dreifðu sjávarbyggðum. Vilja menn leggja byggðirnar af? Það er auðvitað hægt að hafa tvær til fjórar útgerðir sem gera út frá fjórum, fimm stöðum. Punktur.

Hverju sóum við þá af þjóðfélagslegum verðmætum? Samfélagslega séð með tilliti til þeirra verðmæta sem liggja í sjávarbyggðum í mannauði, tækjum og tólum og öðru er þetta frumvarp til verulegra bóta. Ég tala nú ekki um það að mönnum gefst kostur á fara að stunda sjó sem þeir hafa ekki getað. Þetta tryggir nýliðun í fagið. En það þarf auðvitað að taka tillit til stóru útgerðanna og millistóru. Það þarf að horfa í allar áttir í þessu máli.

Hér er lítilræði tekið út fyrir sviga. Ég segi lítilræði. Nú skulum við bara vona að þorskstofninn eflist á næstu árum og við getum tryggt hagsmuni allra sem stunda fiskveiðar og -vinnslu.