138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Atla Gíslasyni, ég veit ekki til þess að hann hafi talað svona um útgerðina enda held ég að ég hafi náð að leiðrétta það í lok orða minna. Hins vegar hafa ráðamenn margir hverjir gert það og það mjög lengi og ég veit það og að sjálfsögðu á atvinnuvegurinn eða útgerðin ekkert síður sök á því að ranghugmyndir eru uppi um það hvernig þar er starfað. Þar þurfa menn heldur betur að girða sig í brók til að koma af stað sannri og réttri ímynd af greininni. Verið er að færa atvinnuréttindi frá einum til annars og það er ekkert lítilræði fyrir þetta fólk, hv. þingmaður, ef við tölum hugsanlega um tveggja vikna vinnu í frystihúsi úti á landi fyrir 70 til 80 manns.

Ef við ætlum að fara í breytingar sem þessar og ná þeim göfugu sjónarmiðum sem hv. þingmaður hafði hér uppi þá get ég verið honum sammála um það að mjög mikilvægt er að hafa sem víðtækasta möguleika á því að menn geti sótt þessa atvinnugrein. Það er alveg út í hött að tala um það að fjórar, fimm útgerðir eða tvær sæki allan fiskinn. Ég tek ekki þátt í slíkri umræðu, það er alveg fáránlegt.

Frú forseti, við erum á rangri leið ef erum ekki tilbúin til þess að að búa til nýja atvinnugrein, líkt og við erum að gera, með því að auka aflaheimildir í stað þess að færa réttindi frá einum til annars.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, frá þeim sem hér stendur hefur fátt jákvætt heyrst um þetta frumvarp. Ég hef þó reynt að koma því á framfæri að ég hef skilið eða reynt að skilja þann anda sem er þar að baki. Ég held hins vegar og hef komið því á framfæri, frú forseti, að leiðin sem verið er að fara sé ekki rétt.