138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni að mjög mikilvægt er að við ræðum sjávarútvegsmálin á málefnalegum grunni.

Hv. þingmaður svaraði því áðan í ræðu sinni að hæstv. ráðherra hefði upplýst um það að hann hygðist hafa svæðin svipuð eða sambærileg. Því vil ég fá að spyrja um skoðun hv. þingmanns á því hvernig eigi að deila magninu inn á svæðin sem verða. Telur hv. þingmaður skynsamlegt að gera það með þeim hætti að aflamagnið ráðist af fjölda báta á viðkomandi svæði? Við skiptum að sjálfsögðu magninu niður á mánuði þannig að við náum aðeins að stýra því líka, sem er mjög skynsamlegt.

Hv. þingmaður segir að þetta sé lítilræði og allt í lagi með það, ég ætla ekki að deila um það við hann. En þetta þýðir 3,6% skerðingu á þorskheimildum annarra. Inni í þessu kerfi öllu eru línuívilnun, byggðakvóti, rækju- og skelbændur, strandveiðar o.s.frv. og í raun þýðir þetta, eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, 8,6% á þær útgerðir sem eru með þorskveiðiheimildir. Þeir sem eru með uppsjávarveiðar, af því að hv. þingmaður nefndi þær áðan, setja núll. Þeir sem eru með karfa setja núll, þeir sem eru með kola setja núll.

Nú hefur verið flutt frumvarp sem er til umsagnar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hver er skoðun hv. þingmanns á því? Mun hann styðja það frumvarp sem segir til um að allir leggi jafnt af mörkum í ígildum talið, hvort heldur sem þeir eru með þessa tegund eða einhverja aðra? Ef þú ert með 100 ígildi og þarft að setja 5%, þá seturðu bara 5% burt séð frá því hvaða tegund af fiski viðkomandi útgerð er með.